Nokkrar athugasemdir

Það sem hins vegar má síður óhreyft liggja eru þær útskýringar á grundvallaratriðum Evrópusambandsins sem Hannes tíundar í máli sínu, einkum að því er virðist til að leiðrétta allt "hjalið" sem talsmenn aðildar að ESB eiga að hafa haldið fram.
Hann byrjar á því að nefna til sögunnar þá breytingu sem verður á ráðherraráðinu frá og með árinu 2005. Þar heldur hann því fram að fulltrúar í ráðherraráðinu verði líklega 26, þar sem Malta og Kýpur muni þurfa að deila sæti sínu hálft ár í senn. Þetta er fjarri lagi enda er slíkt algerlega á skjön við meginhugsunina að baki ESB sem fyrst og fremst er bandalag fullvalda ríkja. Það að ríki skiptist á um setu í ráðherraráðinu er því algjörlega óhugsandi og raunar einnig lagalega ómögulegt. Allar vangaveltur um að Ísland þyrfti, á sama hátt og Kýpur og Malta, að deila sæti sínu með öðru smáríki falla því einnig um sjálfar sig.
Næst er því haldið fram að neitunarvald einstakra ríkja verði afnumið. Þetta á ekki heldur við nein rök að styðjast. Vegnar meirihlutaákvarðanir koma til sögunnar í 29 nýjum málaflokkum við gildistöku ákvæða Nice-sáttmálans en eftir standa enn þá fjölmargir grundvallarmálaflokkar þar sem eftir sem áður verður krafist einróma samþykkis allra ríkja. Svo kann vissulega að fara í framtíðinni að aðferð veginna meirihlutaákvarðana teygi sig til fleiri málaflokka en afar ólíklegt verður að teljast að nokkurn tíma komi að því að einróma samþykki heyri algerlega sögunni til. Engir málaflokkar verða færðir undan einróma samþykki til veginnar meirihlutaákvörðunar nema með samþykki allra aðildarríkja, eins og raunar gildir almennt um samþykkt allrar grundvallarlöggjafar ESB. Í framhaldi af þessu dregur Hannes síðan upp fremur villandi mynd af hugsanlegu áhrifavaldi Íslendinga innan ráðherraráðsins, þar sem litla Ísland hefði aðeins þrjú atkvæði gegn 342 atkvæðum báknsins stóra. Hlutirnir ganga hins vegar alls ekki þannig fyrir sig innan ráðherraráðs ESB. Ísland kæmi ekki til með að standa eitt með sín hugsanlegu þrjú atkvæði gegn öllum atkvæðum hinna aðildarríkjanna.
Þvert á móti reynir ráðherraráðið í lengstu lög að ná sátt og samkomulagi allra aðildarríkja um þau málefni sem tekin eru fyrir hverju sinni áður en til endanlegrar afgreiðslu þeirra kemur. Takist hins vegar erfiðlega að komast að sameiginlegri niðurstöðu ræður atkvæðagreiðsla niðurstöðu mála. Einróma ákvörðun er enn þá skilyrt í nokkuð mörgum málaflokkum en veginn meirihluti ryður sér ávallt frekar rúms, en þar er og verður krafist rúmlega 70% atkvæða til að ákvörðun teljist samþykkt. Þar er alveg eins víst að Ísland verði yfirleitt í hópi þeirra ríkja sem samþykk eru einstökum tillögum þó að auðvitað geti það einnig lent í minnihluta endrum og eins. Í dag þurfa Íslendingar hins vegar að láta allar ákvarðanir ráðherraráðsins, er koma inn á EES-samninginn, yfir sig ganga án þess að geta komið þar nokkuð að málum, hvort sem er til að samþykkja eða andæfa.
Skýringar Hannesar á tilnefningum til ráðherraráðsins eru einnig nokkuð villandi. Hann segir að þar sitji einn ráðherra frá hverju aðildarríki, tilnefndur af ríkisstjórn sinni, ekki kosinn lýðræðislegri kosningu. Staðreyndin er sú að ráðherrar hvers málaflokks fyrir sig hittast í ráðherraráðinu þegar þeirra viðfangsefni ber á góma. Þannig hittast t.d. landbúnaðarráðherrar aðildarríkjanna þegar landbúnaðarmál eru rædd. Ráðherrar sitja í ríkisstjórnum aðildarríkja ESB í skjóli meirihluta löggjafarþinga hvers lands. Til þeirra er vitanlega kosið í lýðræðislegum kosningum með reglulegu millibili í öllum ríkjum ESB.
Þá er einnig í stuttu máli vikið að breytingum á framkvæmdastjórn ESB. Þar er sagt að þeirra sé að vænta á ríkjaráðstefnu sem haldin verður árið 2004. Þrátt fyrir að niðurstöður þeirrar ráðstefnu liggi ekki fyrir fyrr en eftir þrjú ár stendur Hannes klár á því sem fallist verður á þar. Hann talar um að í breytingunum muni felast að áhrif smærri ríkja minnki en stærri ríkja vaxi.
Þetta gengur að vísu þvert á þær samþykktir sem Nice-sáttmálinn kveður á um. Hingað til hafa fimm stærstu þjóðir ESB haft tvo fulltrúa innan framkvæmdastjórnarinnar en frá og með árinu 2005 munu þær þurfa að gefa eftir annan fulltrúa sinn. Hvert ríki mun eftir það eiga einn fulltrúa í framkvæmdastjórninni eða allt þar til að nýju aðildarríkin eru öll komin inn í sambandið. Hámark verður þá sett á fjölda framkvæmdastjóra. Þegar að því kemur mun ráðherraráðið taka einróma ákvörðun um fjölda framkvæmdastjóra en þeir skulu vera færri en 27. Í framhaldi af því verður sætum skipt milli aðildarríkjanna með útskiptingarfyrirkomulagi sem hugnast á öllum aðildarríkjunum. Það er engin ástæða til að ætla að smærri ríkin láti viljandi hlunnfara sig þegar að því kemur.
Þessu til viðbótar gætir nokkurrar tölulegrar ónákvæmni í grein Hannesar. Þannig eru þingmenn Evrópuþingsins sagðir verða 738 eftir breytingar en hið rétta er að gert er ráð fyrir að þeir verði 732 talsins. Þá verður heildaratkvæðafjöldi í ráðherraráðinu líklega 345 atkvæði en ekki 342. Að vísu helgast talnaruglingurinn á atkvæðum í ráðherraráðinu væntanlega af rangfærslum um deilt sæti Möltu og Kýpur en þar er rangt með farið fyrir því.
Umræðan um Evrópumál verður að vera byggð á vel ígrunduðum rökum og frjóum umræðum um hugsanlega kosti og galla aðildar Íslands að ESB til þess að skriður komist á hana og niðurstaða verði innan seilingar. Hannesi Jónssyni óska ég síðan alls hins besta og vona jafnframt að sem flestir stigi fram og tjái sig í framtíðinni um hinar ýmsu hliðar þessa mikilvæga hagsmunamáls okkar Íslendinga.
Birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2001.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home