22.1.02

Á að hleypa öllum að?

Nú á Gunnar í Krossinum víst að vera farinn að standa fyrir bókabrennum á Harry Potter-bókum. Sörpræs, sörpræs. Þar með hefur Harry Potter verið settur á bás með heiðingjum, „kynvillingum” og öðrum þeim sem koma illu til leiðar í veröldinni að mati hins mjög svo víðsýna og fordómalausa safnaðar sem Gunnar er í forystu fyrir. Gunnar er einn af þessum mönnum sem fjölmiðlafólk virðist ansi gjarnt á að leita til í gúrkutíð. Þá grípur frétta- og blaðamenn afskaplega undarlegt ábyrgðarleysi sem brýst út í því að haft er samband við fólk sem byggir skoðanir sínar einkum á þröngsýni og fordómum. Þetta fólk fær síðan að básúna fordóma sína og vitleysu gagnrýnislaust í fjölmiðlum að því að er virðist einkum vegna þess „að það er svo gaman að heyra hvað það segir”. Þetta er allt saman sett fram undir þeim formerkjum og með þeirri röksemdafærslu að allar raddir verði að fá að heyrast af því að það sé eðli lýðræðislegrar umræðu og að fjölmiðlar verði að endurspegla það tal sem á sér stað úti í þjóðfélaginu.

Ákveðnir þjóðfélagshópar verða meira fyrir barðinu á þessum undarlegu viðhorfum öllum en aðrir. Þannig þurfa samkynhneigðir sífellt að kljást við einhverjar samhengislausar tilvitnanir í Gamla testamentið og aðra illa rökstudda vitleysu í rökræðum þegar þeir eru að berjast fyrir þjóðfélagslegri stöðu sinni. Það hefur gert það að verkum að þeirra hjartans mál eru einatt sett niður á einhvers konar fáránlegt grínplan þar sem umræðan kemst aldrei á flug fyrir einhverjum trúðslátum í skjóli trúarlegra röksemda. Þetta er enn og aftur sett upp undir þeim formerkjum að nauðsynlegt sé að allar raddir sitji á rökstólum. Sé þessari röksemdafærslu beitt má hins vegar spyrja af hverju í ósköpunum fulltrúa karlrembna er alltaf haldið fyrir utan hina lýðræðislegu umræðu í hvert skipti sem kvenréttindamál eru rædd eða af hverju fulltrúi antisportista fær ekki að eiga sæti í undirbúningsnefnd fyrir hverja Ólympíuleika.

Annar hópur sem einnig verður ákaft fyrir fordómum og hatursáróðri er hópur nýbúa á Íslandi. Þar ganga harðast fram í fordómum sínum samtök sem kalla sig Félag íslenskra þjóðernissinna. Engin hugmyndafræði eða málflutningur af viti liggur á bak við þessi samtök en markmiðið er að vekja upp og ala á hatri, fordómum og ofbeldi á fólki sem á það eitt sameiginlegt að vera ekki íslenskt langt aftur í ættir. Byggir vitleysan á þeim rakalausa þvættingi að fólk af erlendum uppruna sé til vandræða á Íslandi frekar en þeir sem ættaðir eru úr Skagafirðinum eða vestan af fjörðum. Einhver þeirra, gott ef það var ekki formaðurinn sjálfur, var beðinn um að benda á dæmi. Hann hafði þau ekki á reiðum höndum en hann hefði hins vegar oft siglt til Noregs og margir þar segðu að þar væru útlendingarnir alltaf með eitthvað vesen og svona.

Auðvitað á ekki að að þrengja málfrelsi eða banna þessum þröngsýnu og rakalausu aðilum að tjá sig. En það á hins vegar ekkert skylt við lýðræðisleg skoðanaskipti að blanda fólki í umræður sem hefur ekki skoðanir á hlutunum heldur einungis fordóma gagnvart þeim. Slíkt, þvert á móti, hindrar og eitrar eðlileg, lýðræðisleg skoðanaskipti. Því ætti það með réttu móti að tilheyra ábyrgri blaðamennsku að halda hatursfullum sleggjudómum utan kastljóssins, jafnvel þó að einhverjum finnist gaman að hlæja að afkáralegum yfirlýsingum þeirra sem þeim halda fram. Yfirlýsingum sem svo aftur bitna á öðrum. Framsögumönnum sértrúarsafnaða, íslenskra rasista og annarra sem hingað til hafa einkum beitt bulli og þvælu í þágu málstaðar síns má síðan hleypa inn í rökræður fullþroska fólks þegar þeim lánast að beina málflutningi sínum í málefnalegan farveg.

Birtist á Pólitík.is 22. janúar 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home