1.2.02

Chirac eða Jospin?

Það eru kosningar framundan hér í Frakklandi - ekki einar, heldur tvennar. Þingkosningar verða haldnar í vor en áður en að þeim kemur kjósa Frakkar um forseta. Kosningaskjálfti er þegar vel mælanlegur, sérstaklega fyrir forsetakosningarnar og kannanir eru farnar að birtast æ tíðar sem draga upp nokkuð eindregna mynd af því hverjir eiga raunhæfa möguleika í baráttunni og hverjir munu nánast örugglega heltast úr lestinni. Þannig eru nær allar líkur á því að þeir sem heyja munu lokabaráttuna um forsetaembættið verði tveir valdamestu menn Frakklands; þeir Lionel Jospin forsætisráðherra og Jacques Chirac forseti.

Kosningakerfið í forsetakosningum í Frakklandi er þannig upp byggt að kosið er í tveimur umferðum. Rétt til þátttöku í seinni umferðinni öðlast tveir efstu frambjóðendur úr fyrri umferð. Raunar segir það sig sjálft að ekki þarf að boða til seinni umferðar ef einn frambjóðendanna fær hreinan meirihluta strax í fyrri umferð.

Í þetta sinn hefur hátt á annan tug frambjóðenda boðið sig fram. Þetta fólk allt saman endurspeglar nokkurn veginn litróf franskrar flokkapólitíkur, allir flokkar á þingi eiga sína fulltrúa meðal frambjóðenda allt frá kommúnistum til hægri öfgamanna. Niðurstöður kannana sýna, svo ekki verður um villst, að hinir pólitísku fjendur Jospin og Chirac standa langbest að vígi. Samkvæmt könnun, sem vikuritið Le Nouvel Observateur birti nýlega, er fylgi Jacques Chiracs 27% en fast á hæla honum kemur Lionel Jospin með 24%. Fylgi beggja sveiflast reyndar um fjögur til fimm prósent til og frá eftir könnunum svo að staðan er langt í frá endanleg. Þar að auki eru enn þrír mánuðir til stefnu. Það skiptir hins vegar litlu hvor verður númer eitt og hvor númer tvö. Það eitt að tryggja sér annað tveggja efstu sætanna dugir til þátttöku í sjálfum úrslitaleiknum.

Þrátt fyrir þetta er það ekki þannig að aðrir frambjóðendur komi ekki við sögu. Þeir og kjósendur þeirra geta haft mikið að segja þegar til stuðnings við efstu frambjóðendurna tvo kemur í seinni umferð kosninganna. Meðal þessara minni spámanna má tvo helsta nefna; Jean-Pierre Chevènement, miðsækinn leiðtoga klofningsafls frá Sósíalistaflokknum, og Jean-Marie Le Pen, leiðtoga öfgahægriflokksins Front National. Báðir eru þeir líklegir til að fá rétt tæp tíu prósent atkvæða í fyrri umferðinni. Aðrir frambjóðendur þykja í dag líklegir til að uppskera frá hálfu og upp í sjö prósent atkvæða.

Baráttan í síðari umferð kosninganna á eftir að verða fjörug ef marka má síðustu kannanir. Þar er munurinn á Jospin og Chirac ekki marktækur, þeir sveiflast á víxl niður og upp fyrir þau fimmtíu prósent sem til þarf. Báðir hamast þeir nú við að höfða til miðjunnar og eru atkvæði kjósenda miðjumannsins Chevènements talin sérstaklega dýrmæt, en fyrrnefnd könnun Le Nouvel Observateur leiðir það í ljós að kjósendur hans virðast frekar ætla að fylkja sér á bak við Jospin í síðari umferðinni. Heildarfjöldi óákveðinna er hins vegar enn þá töluverður en um það bil fjórðungur kjósenda hefur ekki enn gert upp hug sinn.

Það lítur því út fyrir að háspennuúrslitarimma fylgi í kjölfar nokkuð fyrirsjáanlegra undanúrslita í slagnum um embætti forseta Frakklands.

Meira síðar...

Birtist á Pólitík.is 1. febrúar 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home