15.2.02

Tilgerðarlegur gerviglamúr

Um síðustu helgi voru þessi íslensku tónlistarverðlaun afhent á árlegri samkomu tónlistargeirans. Fréttir af hátíðinni hafa verið rækilega tíundaðar í vikunni, þar sem menn hafa verið missáttir við vinningshafa í einstökum flokkum.

Það er svo sem lítil ástæða til að fara að fjargviðrast mikið yfir úrslitum í einstökum flokkum þó maður fallist reyndar treglega á það að XXX Rotweilerhundar hafi átt öll þessi verðlaun skilið. Hinn áberandi markaðskeimur sem sveif yfir vötnum hefur væntanlega átt mikinn þátt í sigri þeirra sem og öðrum útnefningum kvöldsins, til dæmis virtist enn og aftur algjörlega gengið framhjá afurðum Thule-útgáfunnar sem væntanlega býður þó upp á það ferskasta og besta í íslensku tónlistarlífi um þessar mundir. Nægir þar að nefna frábærar plötur hljómsveitanna The Funerals og Trabant sem báðar komu út á síðasta ári. Þessar sveitir virðast vera að upplifa það nákvæmlega sama og Sykurmolarnir hér í eina tíð, þ.e. að enginn er spámaður í eigin föðurlandi og að upphefðin virðist þurfa að koma að utan til þess að heimafólk kveiki á perunni.

Annars skiptir kannski ekki öllu hverjum hlotnast hvaða verðlaun á hátíð sem þessari. Aðalmálið er eiginlega hversu yfirgengilega hallærisleg og tilgerðarleg þessi samkoma er, ásamt reyndar annarri og verri sem er serímónían í kringum Eddu-verðlaunin. Báðar þessar hátíðir eru haldnar eftir bandarískri fyrirmynd, einkum að því er virðist Grammy- og Óskarsverðlaunanna. Á þeim hátíðum baða helstu stjörnur bransans sig í sviðsljósinu, allt er grand og flott og í viðeigandi glamúrstíl. Þegar þetta er hins vegar heimfært upp á Ísland verður útkoman hins vegar afskaplega einkennileg svo ekki sé meira sagt, sérstaklega vegna þess að á Íslandi eru ekki til neinar stjörnur, þetta er bara venjulegt fólk sem stendur fyrir aftan okkur í röðinni úti í búð og drekkur bjórinn sinn á næsta borði á barnum án þess að fá yfirleitt einhverja sérstaka stjörnumeðferð. Það verður því hálfhjákátlegt að sjá þetta sama fólk síðan ganga galaklætt eftir einhverjum rauðum dregli látandi eins og það sé á sama stigi og heimsfrægir og forríkir leikarar eða tónlistarmenn.

Edduverðlaununum hefur nú reyndar tekist að toppa tónlistarverðlaunin hingað til. Snobbið þar hefur verið yfirgengilegt en slíkt á einkar illa við í hinu svo til stéttlausa íslenska samfélagi og kom það t.a.m. skýrt í ljós þegar verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti hér um árið. Þá var boginn spenntur hátt, öllum stærstu nöfnum bransans var smalað saman og svo var almenningi gefinn kostur á þátttöku í samkomunni með því skilyrði að hann mætti kjólfataklæddur á staðinn og borgaði einhverjar fimmþúsund krónur fyrir að fá að vera með. Fólk sýndi þessu hins vegar eðlilega lítinn áhuga og útkoman var grátbrosleg; hálftómur salur í Borgarleikhúsinu þar sem enginn nennti að mæta nema einmitt þeir sem tilnefndir voru, allir klæddir í sitt fínasta algjörlega úr takti við raunveruleikann og stemninguna, svona eins og þegar maður lendir í því koma jakkafataklæddur í partí þar sem allir hinir eru bara í gallabuxum og bol.

Annað sem tengist þessu hálfgerða mikilmennskubrjálæði hjá skipuleggjendum þessara hátíða er allur aragrúinn af flokkum sem veitt eru verðlaun fyrir. Oft hefur það komið fyrir að svo fáir koma til greina í einstökum flokkum að fólk hefur verið verðlaunað án þess að hafa nokkuð sent frá sér á árinu eða komið fram. Þeir hafa mætt hálfskömmustulega upp á svið og jafnvel minnt á að þeir ættu nú kannski ekki verðlaun skilið fyrir ekkert.

Bæði íslensku tónlistarverðlaunin og Edduverðlaunin mættu gjarnan taka til dæmis Hin íslensku bókmenntaverðlaun sér til fyrirmyndar hvað sem svo annars má um þau segja. Þar hafa aðstandendur þó gætt hófs og haft samkomuna meira í stíl við íslenskan raunveruleika, veitt fá verðlaun og haft athöfnina sjálfa látlausa. En menn mega auðvitað halda áfram að halda þessar íslensku tónlistar- og kvikmyndahátíðir í sama stíl og hingað til ef þeir halda að þær geri þá meiri í augum fjöldans.

Birtist á Pólitík.is 15. febrúar 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home