Batnandi mönnum er best að lifa

Smám saman hefur kvarnast úr liði stuðningsmanna innnrásarinnar og ýmsir þeirra sem áttu beinan þátt í ákvörðuninni um innrásina hafa séð að sér og viðurkennt að innrásin í Írak hafi verið hræðileg og óafturkræf mistök sem ekki sér enn fyrir endann á.
Íslensk stjórnvöld hafa hingað til hins vegar reynst kaþólskari en páfinn í skilyrðislausum stuðningi sínum við innrásina misheppnuðu. Þau hafa þráast við og á engu látið bera þó að í ljós hafi komið það sem þorri almennings hefur alla tíð vitað; að rök bandamanna fyrir innrásinni væru blekkingarleikur frá upphafi til enda.
Hjálmar Árnason virðist í það minnsta vera búinn að fá upp í kok því að í Silfri Egils gærdagsins lýsti hann því yfir að hann vilji endurskoða stuðning íslenskra yfirvalda við Íraksstríðið. Þó fyrr hefði verið, segir maður nú bara!
Nú er bara að vona að fleira skynsamt fólk taki sig til og hætti að loka augunum fyrir augljósum staðreyndum málsins. Ekki verður til dæmis öðru upp á félagshyggjufólkið Dagnýju Jónsdóttur og Kristin H. Gunnarsson trúað en að þau geti nú fallist á það að tími sé til kominn að við Íslendingar hættum stuðningi við ólögmætan og órökstuddan yfirgang okkar, hinna staðföstu þjóða, á saklausri íraskri alþýðu.
Þá er ekki annað að gera en að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem ríkisstjórn Íslands verður svipt umboði til áframhaldandi þátttöku í ólöglegu stríði í Írak. Atkvæði Hjálmars ætti þar að vera í höfn og með samþykki stjórnarandstöðunnar og fulltingi félagshyggjufólks innan Framsóknarflokksins ætti stuðningur við slíka tillögu að vera tryggður. Fleiri stjórnarþingmenn mættu svo að sjálfsögðu sjá að sér og hoppa um borð.
Þá rynni loks upp sú langþráða stund að íslensk stjórnvöld töluðu röddu þjóðar sinnar sem alla tíð hefur mótmælt harkalega þátttöku stjórnvalda sinna í innrásinni í Írak og aumkunnarverðum og upplognum réttlætingum hennar.
Birtist á Sellunni 29. nóvember 2004.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home