24.11.04

Þorskastríðin voru ekki stríð

Flestir tengja sagnfræði við það að skýra út liðna atburði og horfna tíma. Færri leiða ef til vill hugann að því að kannski má segja að sagnfræði túlki í raun tvo tíma, þ.e. þann sem hún lýsir en þar að auki gefur hún glögga mynd af þeim viðhorfum sem ríkja á þeim tíma sem hún er skráð. Flestir hafa til dæmis heyrt um Íslandssögu Jónasar frá Hriflu sem dró upp töluvert hetjulitaðri og þjóðerniskenndari mynd af sögu okkar en þá sem við eigum nú að venjast.

Slík söguskoðun, lituð af þjóðerniskennd, er hins vegar langt í frá liðin undir lok. Það er til dæmis ekki fyrr en alveg nýlega að fram eru komnir sagnfræðingar sem túlka Þorskastríðin á annan hátt en þann að Íslendingar hafi verið hinn göfugi lítilmagni deilunnar sem ávallt hafði á réttu að standa en Bretar hafi verið hinn óbilgjarni risi sem níddist miskunnarlaust á minni máttar.

Þar fyrir utan eru fræðimenn dagsins í dag yfirleitt sammála um það að Þorskastríðin hafi alls ekki verið nein stríð. Innan friðar- og átakafræða (peace and conflict studies) eru þau til að mynda í mesta lagi skilgreind sem minni háttar upphlaup. Það er enda erfitt, og nánast smekklaust, að halda því til streitu að sama stríðshugtakið skuli nota um deilu sem hámarkaðist í dælduðum skipskrokkum og klipptum togvírum og um raunveruleg stríð með tilheyrandi hörmungum, eyðileggingu og dauða fjölda fólks.

Þorskastríðin eru samt sem áður af og til nefnd til sögunnar innan friðar- og átakafræða og þá einkum í tengslum við þá kenningu að lýðræðisþjóðir stofni ekki til vopnaðra átaka hver gegn annarri. Þar hafa sumir fræðimenn, sem vilja hafa varann á sér, nefnt Þorskastríðin til sögunnar sem hugsanlega undantekningu frá reglunni, þó lítilvæg sé.

Fáir hafa þó beinlínis farið út í það að gaumgæfa hvort Þorskastríðin eigi yfirhöfuð að teljast til undantekninga frá reglunni um frið milli lýðræðisþjóða. Valur Ingimundarson sagnfræðingur er þó einn þeirra. Í niðurstöðum bókar hans, Uppgjör við umheiminn, telur hann að reynsla Þorskastríðanna dragi mjög úr gildi kenningarinnar um frið milli lýðræðisþjóða. Aðrir eru á öðru máli; úr skrifum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings má til að mynda lesa að ekki sé hægt að tala um Þorskastríðin sem stríð og ástæðuna fyrir því að ekki kom til stríðs megi meðal annars rekja til þess að það voru lýðræðisþjóðir sem áttust við. Þorskastríðin styrki því í raun kenninguna um frið milli lýðræðisþjóða.

Rök Guðna virðast, þegar málin er skoðuð ofan í kjölinn, mun haldbærari — að Þorskastríðin renni stoðum undir kenninguna um frið milli lýðræðisþjóða frekar en að átökin við Íslandsstrendur skuli túlka sem einhvers konar undantekningu frá reglunni.

Þar vegur þyngst að Þorskastríðin voru ekki stríð. Ekkert skip sökk og ekkert mannslát er beinlínis hægt að rekja til átaka á miðunum.* Ekki skal þó gert lítið úr þeim hita sem var í deilunni, sérstaklega frá sjónarhóli Íslendinga enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt þjóðarbú. En þrátt fyrir það einsettu báðir aðilar sér það allan tímann að láta deilurnar ekki fara úr böndunum og þróast yfir í raunverulegt stríðsástand.

Það má jafnvel færa fyrir því rök að hið undirliggjandi traust deiluaðila hvor á öðrum hafi verið slíkt að þeim hafi báðum getað liðist að brjóta reglur og norm upp að vissu marki án þess að eiga það á hættu að hinn aðilinn myndi megna það að fara út í valdbeitingu þar sem lífum væri fórnað (þó að vissulega hafi í einstaka tilvikum verið teflt á tæpasta vað). Slíkt hefði einfaldlega ekki liðist í samskiptum lýðræðisþjóða og því virtust báðir deiluaðilar gera sér grein fyrir.

Það verður því að segjast að líklegra er Íslendingar og Bretar (og að litlu leyti einnig V-Þjóðverjar) hafi í raun sýnt fram á að lýðræðisþjóðir halda átökum sínum í skefjum lendi þau í heiftúðugum deilum og leysa sín mál á endanum með gagnkvæmu samkomulagi. Þetta þarf þó ekki að þýða það að kenningin um frið milli lýðræðisþjóða sé hnökralaus eða haldbær til eilífðar eða í öllum tilvikum. En þetta þýðir það þó að um Þorskastríðin gildir það að þau eru ekki undantekning frá reglunni heldur styrkja þau hana í raun í sessi.

*) Eina óbeina tilvikið er þegar að skipverji á Ægi lést af raflosti sem hann fékk er hann vann við viðgerðir á varðskipinu úti á rúmsjó eftir árekstur þess við breska freigátu.


Birtist á Sellunni 24. nóvember 2004.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home