Meira um tilnefningar gærkvöldsins

Kostir og gallar fyrirkomulagsins
Nú er skipulagið svipað og í fyrra, þriggja manna dómnefndir í flokki fræðibóka annars vegar og fagurbókmennta hins vegar tilnefna fimm bækur. Sigurvegara í báðum flokkum velur svo ný nefnd. Hún er skipuð formanni sem forseti Íslands tilnefnir (Ragnar Arnalds að þessu sinni) og svo formönnum fyrri nefndanna tveggja. Þetta fyrirkomulag er einnig umdeilt. Það má til dæmis spyrja sig að því hvort að eðlilegt sé að tveir forystumenn í stjórnmálum eigi að ráða því hvaða skáldsögur eru tilnefndar til verðlaunanna, það býður í það minnsta upp á ákveðnar samsæriskenningar.
Þá má einnig deila um það hvort að ekki sé réttara að hafa bókmenntafræðinga ráðandi í nefndinni um fagurbókmenntir í stað borgarfulltrúa og óperustjóra. En á móti má auðvitað spyrja hvort að fleiri megi ekki að hafa skoðun á bókum en bókmenntafræðingar. Þarna tekst það því á hvort í hávegum skuli hafa sérfræðiálit eða álit fulltrúa almennings. Sama má auðvitað segja um fræðibókanefndina.
Þær sem komust og þær sem hefðu átt að komast
Tilnefningar fyrir eitthvað sem tengist jafnhuglægu mati og bókmenntum verða alltaf umdeildar. Þegar að öllu er á botninn hvolft virðast hins vegar nefndirnar báðar hafa komist að nokkuð sannfærandi niðurstöðu þó að auðvitað hefðu fleiri bækur komið til greina í báðum flokkum.
Margir hafa til að mynda talið að skáldævisögur Bjarna Bjarnasonar (Andlit) og Lindu Vilhjálmsdóttur (Lygasaga) og jafnvel skáldsaga Vigdísar Grímsdóttur (Þegar stjarna hrapar) hefðu átt að vera meðal hinna fimm fræknu fagurbókmenntaverka. Einnig má nefna glæpasögu Ævars Arnar Jósepssonar (Svartir englar) sem margir hafa lofsungið.
Fræðibókaflokkurinn er afskaplega víður og breiður og mörg stórmerk rit hefðu hæglega getað komist á fimm bóka listann. Af handahófi má nefna Andvökuskáld, seinni hluta ævisögu Stephans G. Stephanssonar, Íslensku bílaöldina eftir Örn Sigurðsson og Ingiberg Bjarnason og Sagnalist, íslenska stílfræði II eftir Þorleif Hauksson. Sá listi sem liggur fyrir virðist hins vegar endurspegla nokkuð vel breiddina í flokknum og þar er engri bók sérstaklega ofaukið.
Að lokum: Hávísindaleg spá
Flokkur fagurbókmennta: Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson. Ekki spurning. Gagnrýnendur hafa verið á einu máli um að um epískt stórvirki sé að ræða. Á síðasta ári varð ljóðabók sem lét fremur lítið fyrir sér fara fyrir valinu og þess vegna mun dómnefndin nú ósjálfrátt sveigjast í hina áttina. Svo er líka komið að Ólafi, segja margir. Ekki spillir rammíslenskt umfjöllunarefnið fyrir í hugum stjórnmálamanna, hinnar ofurþjóðernissinnuðu starfstéttar sem myndar meirihluta lokanefndarinnar. Næstlíklegastur: Skugga-Baldur eftir Sjón.
Flokkur fræðibóka: Þar koma tvær bækur til greina: Jón Sigurðsson - Ævisaga II eftir Guðjón Friðriksson og Saga Reykjavíkur - í þúsund ár, 870-1870 (tvö bindi) eftir Þorleif Hauksson. Í fyrra vakti það athygli að ævisaga Guðjóns Friðrikssonar um Jón forseta var ekki einu sinni tilnefnd. Margir túlkuðu það þannig að bindin tvö yrðu verðlaunuð saman þegar að verkinu lyki ári síðar. Ævisaga Jón Sigurðssonar hefur hins vegar ekki notið sömu hylli og ævisaga Einars Benediktssonar eftir sama höfund (Kannski af því að Jón var miklu leiðinlegri!). Jón forseti mun hins vegar slá fast á strengi fyrrnefndrar þjóðerniskenndar í nefndinni.
Saga Reykjavíkur er hins vegar stórglæsilegt tveggja binda verk, ríkulega skreytt myndum og miklum fróðleik. Það verður mjög erfitt fyrir dómnefndina að horfa fram hjá þessu tæplega þúsund blaðsíðna þrekvirki. Ég spái því þess vegna að Saga Reykjavíkur merji þetta eftir harða samkeppni við Jón forseta. Aðrar bækur á listanum eiga ekki séns.
Svo er það bara í höndum Ragnars Arnalds og félaga að ákveða hvort ég verð sannspár eða veð gjörsamlega í villu og svíma.
Birtist á Sellunni 5. desember 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home