Endalaus kvikmyndahátíð

Úr nægu er svo sem að velja. Til dæmis væri hægt að skrifa langa og pirraða grein um nánast dagleg afglöp últra hægri stjórnarinnar hér. Til dæmis um þáttökuna í Íraksstríðinu, skeytingarleysi og afturför þeirra í jafnréttismálum, kynþáttahyggjuna og svo margt fleira.
Hins vegar ætla ég að beina sjónum mínum í aðra átt og reyna að draga það fram eitthvað af því fjölmarga sem gott er hér í landi, fyrir utan auðvitað sumarið og sólina. Í gær rakst ég til að mynda á afskaplega áhugavert kvikmyndahús sem staðsett er hér í Kaupmannahöfn. Það er ólíkt hefðbundnum kvikmyndahúsum að því leyti að þar eru gamlar og góðar myndir sýndar upp á hvern dag. Uppsetningin er ekki ólík því sem gerist og gengur á kvikmyndahátíðum þar sem ákveðin þemu eru lögð til grundvallar.
Nú í júlí og ágúst er sjónum kvikmyndahússins, sem vel á minnst, heitir Cinemateket, beint að nokkrum viðfangsefnum. Þar má nefna japanskar hryllingsmyndir, kvikmyndir með Robert de Niro, myndir sem gerast í Kaupmannahöfn og kvikmyndir með frönsku leikkonunni Simone Signoret. Í september og október verður sjónum síðan beint að einhverjum allt öðrum viðfangsefnum. Það má því að nokkru leyti segja að það sé stanslaus kvikmyndahátíð í gangi á Cinemateket þar sem athygli kvikmyndaunnenda er alltaf beint að einhverju nýju og spennandi.
Auk þess sem Cinemateket sýnir þrjár til fjórar kvikmyndir flest kvöld hýsir það einnig myndbandasafn, myndbanda- og bóksölu og kaffihús. Cinemateket ætti því að vera gullnáma alls áhugafólks um kvikmyndir. Ekki síður er starfsemin mikilvæg til að komast hjá menningarlegri einsleitni hefðbundinna kvikmyndahúsa þar sem sami tónninn er allt of ráðandi.
Fyrir áhugasama á leiðinni til Kaupmannahafnar:
Cinemateket
Gothersgade 55
1123 København K
Birtist á Sellunni 28. júlí 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home