22.11.02

Týran í svartnættinu?


Það hefur satt best að segja verið sjaldgæft að góðar fréttir komi frá Ísrael og Palestínu undanfarin misseri. Yfirleitt berast aðeins þaðan tíðindi af vitfirrtum voðaverkum skæruliða og einstaklega ógeðfelldum og klunnalegum viðbrögðum fasistans Ariels Sharons við ástandinu sem hann upphóf sjálfur. Fari einhvern tíma fram vafasamt val á lélegasta stjórnmálamanni síðari tíma ætti hann að fara mjög ofarlega á blað enda hefur hann vísvitandi leitt glundroða og hörmungar yfir tvær þjóðir; Palestínumenn og ekki síður sína eigin þjóð.

Góðu fréttirnar
Hinar sjaldséðu góðu fréttir eru hins vegar þær að Verkamannaflokkurinn þarlenski hefur kosið mann til forystu sem ber með sér jákvæða strauma. Sá heitir Amram Mitzna og hefur fram að þessu verið borgarstjóri í Haifa, þar sem nokkur fjöldi Palestínumanna býr. Tillögur hans beinast í friðarátt og stangast í flestu á við áherslur fráfarandi formanns en sá var fremur hallur undir leiðir Sharons og kóna hans.

Afturhvarf til friðarferlis Baraks
Mitzna boðar afturhvarf til friðarferlisins sem skilaði Oslóar-samkomulaginu en beið síðan endanlegt skipbrot eftir að samningar Baraks og Arafats sigldu í strand. Í kjölfarið kom svo vargöld Sharons sem er á góðri leið með að stefna öllu trausti og friðsamlegri umleitan í endanlega glötun.

Mitzna vill m.a. hefja viðræður við Arafat, hverfa með herlið frá Gaza-svæðinu og láta fjarlægja hluta af ólöglegum landnemabyggðum Ísraela. Hann vill byggja á friðartilboði Baraks sem Arafat hafnaði árið 2000. Þar er meðal annars gert ráð fyrir palestínskum landssvæðum á Gaza-svæðinu, Vesturbakkanum og í ákveðnum hverfum Jerúsalem. Sharon hefur aldrei tekið nein slík palestínsk yfirráð í mál.

Friðarferli Baraks var reyndar langt í frá að vera fullnægjandi fyrir Palestínumenn. Þar var hreint ekki um jafn mikla fórnfýsi og góðmennsku að ræða eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka. Hins vegar hljóta Palestínumenn að minnsta kosti að binda vonir sínar við mann eins og Mitzna sem þó er tilbúinn að virða þá viðlits og ef til vill koma fram við þá eins og manneskjur.

Slæmu fréttirnar
Aftur á móti eru slæmu fréttirnar þær að fátt bendir til þess í augnablikinu að Verkamannaflokkurinn undir forystu Mitzna fái brautargengi ísraelsku þjóðarinnar. Hatrið og tortryggnin sem hefur gegnumsýrt allt þjóðfélagið á tímum Sharons virðist hafa blindað kjósendur fyrir yfirvegaðri og skynsamlegri lausnum til lengri tíma. Mitzna hefur reyndar þegar gefið það til kynna að hann muni ekki gefa sín ofantöldu stefnumál eftir. Því er nánast útséð um það, eins og staðan er í dag, að Sharon geti myndað álíka breiðfylkingu, nánast þjóðstjórn, um voðaverk sín á næsta tímabili. Hann gæti því átt erfitt verkefni fyrir höndum við hugsanlega stjórnarmyndun með hægri flokkunum í kjölfar kosninganna á næsta ári.

Stjórnarmyndun hægri flokkanna á næsta ári væri líklegt til að leiða til enn meiri hörmungarstjórnar í Ísrael. Því miður er það ekki ólíkleg niðurstaða. Hins vegar er vonin til staðar með tilkomu Mitzna. Hann gæti verið ljóstýran í svartnættinu.

Birtist á Pólitík.is 22. nóvember 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home