14.6.02

Land tækifæranna

Klisjur geta verið ansi lífseigar. Undanfarin ár hefur sú klisja fangað ýmsa að Kína sé að breytast í eitthvert efnahagsstórveldi. Menn halda því fram að þarna hljóti að bíða manna mikill auður innan nokkurra ára. Hagvöxtur og þjóðarframleiðsla eiga að vera á blússandi siglingu upp á við. Svo er horft með stjörnur í augunum á markað með vaxandi kaupmátt sem telur einhverjar 1200 milljónir. Tölurnar eiga að segja sína sögu og þær geta varla logið. En þær gera það reyndar!

Falsaðar upplýsingar
Þetta ótrúlega rísandi efnahagsveldi stenst nefnilega ekki nánari skoðun. En kannski hafa upplýsingarnar um hið stórkostlega markaðssvæði Kína borist íslenskum stjórnvöldum í sama umslagi og svarti listinn yfir hina stórhættulegu sameiginlegu óvini íslenskra og kínverskra stjórnvalda; leikfimiflokkinn Falun Gong. Hver veit?

Það eitt að útflutningur Íslands til 1200 milljóna manna þjóðfélags sé mun minni en til smáríkisins Tævans ætti auðvitað að duga til að fá menn ofan af þessu gegndarlausa ofmati á Kína. Vilji fólk hins vegar rýna í tölurnar er það líka hægt.

Í byrjun apríl birti vikuritið Newsweek umfjöllun um talnaleikfimi Kínverja þar sem sýnt er fram á að haft er það sem betur hljómar í Kína. Þar kemur fram að opinberar skýrslur ýkja allar tölur um þjóðarframleiðslu og hagvöxt og búa sumar þeirra jafnvel til fyrirfram. Stórlega er dregið úr tölum um atvinnuleysi sem og skuldum þjóðarbúsins. Einnig er útgjaldaliðum hagrætt; talið er til dæmis að fimmfalt meira fé hafi verið eytt í varnarmál á síðasta ári en opinberar tölur segja til um. Auðvitað hefur samt einhver framþróun átt sér stað í Kína. En ríkið er samt sem áður enn þá lítið meira en frumstætt landbúnaðarþjóðfélag sem er langt, langt á eftir nágrönnum sínum í austurhluta Asíu.

Öll þessi „tækifæri“
Sannfæringar Íslendinga um þennan ofboðslega mikilvæga vaxandi markað og samskipti við þetta stóra ríki lykta óneitanlega nokkuð af sjálfslygi. Útflutningurinn er jú kominn upp í hið gígantíska hlutfall 0,6% sem grundvallast nær einungis á sjávarútvegi, en þess má geta að Kínverjar borða að mestu sinn eigin fisk, enda eru þeir sjálfir ein mesta fiskveiðiþjóð í heimi. Ekki það að það eigi að draga úr því að leitað sé á kínverskan markað en kannski er ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni.

Mörg þessi „tækifæri“ sem eiga að bjóðast í Kína einkennast nefnilega nokkuð af gullgrafarahugsanahætti. Einhver fór fyrir nokkrum árum og setti upp lakkrísverksmiðju og var sannfærður um að hann gæti komið öllum kínverska milljarðinum upp á íslenskan lakkrís. Hann varð frá að hverfa slyppur og snauður. Áttaði sig á því að viðskiptaumhverfi í Kína var frumstætt að allt of mörgu leyti. Eins var með öll menningaráhrifin þegar Kristján Jóhannsson átti að hafa orðið öllum Kínverjum nafnkunnur af því að syngja Turandot í beinni útsendingu í sjónvarpinu þar, hér um árið. Það gleymdist hins vegar að ekki nema lítið hlutfall Kínverja hefur aðgang að sjónvarpi og hinir voru kannski ekkert endilega að horfa.

Kannski verður Kína einhvern tíma öflugt og stórt. Hins vegar þarf kaupmáttur að minnsta kosti að ná viðundandi stigi áður en það verður. Í það eru væntanlega nokkrir áratugir, sérstaklega með núverandi aðferðum. Þá þarf einnig að koma til markaðsvænna stjórnarfar sem áttar sig þó ekki nema á því að fölsun opinberra gagna laðar ekki að sér fjárfesta. Fyrir utan svo allt, allt hitt.

Birtist á Pólitík.is 14. júní 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home