31.5.02

Þið svindluðuð!!!

Það hefur verið nokkuð hjákátlegt að horfa upp á það hvernig sjálfstæðismenn hafa tekið tapinu í borginni undanfarna daga, eiginlega bara aumkunnarvert. Þeir hafa svolítið minnt á tapsára krakka í boltaleik sem öskra að hinir hafi svindlað en samt ekki fyrr en tapið blasir við og niðurlægingin er orðin staðreynd. Slík framkoma er nú yfirleitt talin mönnum til nokkurrar minnkunar. Þeir halda hins vegar höfði sem einfaldlega viðurkenna ósigur sinn og reyna að gera betur næst. Flestir temja sér slíka hegðun með aldrinum og auknum þroska - en kannski ekki allir.

Maður hefði til dæmis haldið að reyndur pólitíkus eins og Björn Bjarnason myndi labba upp á sviðið á kosningavöku D-listans, viðurkenna ósigur sinn, óska andstæðingum sínum til hamingju og þakka svo stuðningsmönnunum öllum fyrir sig. Þannig hefði hann komist skammlaust og bara alveg þokkalega frá tapinu. En þess í stað sneri hann ræðu sinni upp í óumbeðið skemmtiatriði fyrir andstæðinga sína.

Allt í einu var Ólafur F. Magnússon orðin stóra sökin. Ólafur F. Magnússon! Maðurinn sem sjálfstæðismenn losuðu sig pent við á einkar smekklegan hátt, eða hitt þó heldur. Þá var hann talíbani og gott ef ekki einhvers konar terróristi líka. Þá hefði öllum rétttrúuðum sjálfstæðismönnum þótt fáránlegt að tala um klofning við brotthvarf hans enda þótti þeim flestum hreinsun af manni eins og honum sem dirfðist að vera ósammála Flokknum í ákveðnum málum. Fram að hinu sérstaka skemmtiatriði Björns hafði enginn, að mér vitandi, talað um Ólaf F. Magnússon eða F-listann sem klofningsafl úr Sjálfstæðisflokknum, enda var hann það ekki. Stefnumálin ein og sér eiga til að mynda lítið sameiginlegt með orðum og gerðum Sjálfstæðisflokksins. En Ólafur gat sjálfsagt glott góðlátlega eftir allt saman.

Og eins og Björn og félagar væru ekki búnir að grafa sig á bólakaf ofan í sína eigin gröf þá bættu þeir því við að fjölmiðlarnir hefðu þar að auki verið ótrúlega ósanngjarnir. Björn fór að kenna Agli Helgasyni um það að leyfa Sjálfstæðismönnum ekki að tala nógu mikið. Til að bæta svo gráu ofan á svart skaut hann því inn í að Egill væri nú heldur ekkert spes þáttastjórnandi. Það vill svo einkennilega til að sú gagnrýni kemur líka fram í kjölfar taps Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ég man ekki til þess að Björn hafi áður haft mikið við þætti Egils að athuga, frekar að hann hafi hrósað þeim hástert og verið þar nokkuð reglulegur gestur.

Súrustu sjálfstæðismönnunum hefði eflaust verið fyrir bestu að anda djúpt og komast yfir mestu tapsárindin og svekkelsið áður en þeir fóru að skýra kosningatapið á svona líka uppbyggilegan og málefnalegan hátt. Þá hefðu þeir kannski séð að sökin á tapinu liggur óþægilega nærri þeim sjálfum.

Birtist á Pólitík.is 31. maí 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home