5.3.02

Takk, strákar!

Jæja, þá er íslenskt útvarp endanlega dautt, týnt og tröllum gefið. Tvíhöfði, eina ljósið í myrkrinu, virðist vera hættur. Eftir stendur samansafn af drasli; ömurlegri og steingeldri tónlist á öllum vígstöðvum og aumkunarverðum þáttastjórnendum sem eru skárstir þegar þeir hafa vit á því að tala sem minnst eða sleppa því bara alfarið.

Tvíhöfði hefur stytt manni stundirnar í næstum því heilan áratug eða allt frá því að hið stórkostlega útvarpsleikrit Hótel Volkswagen fór að heyrast á milli atriða í Heimsenda, þætti Sigurjóns Kjartanssonar og Möggu Stínu á Rás 2, fyrir bráðum tíu árum síðan. Veturinn eftir hvarf Magga Stína á braut en sæti hennar í þættinum tók ein af röddunum úr útvarpsleikritinu frá árinu áður. Jón Gnarr - nafnið hljómaði undarlega og fáir vissu hver maðurinn var. Fljótlega var þó dyggum hlustendum ljóst að nýja tvíeykið væri fært um að framkalla grín í hæsta gæðaflokki, sígildir dagskrárliðir eins og Smásálin urðu til, áheyrendur fengu vikulega að hlusta á brot af því „besta” úr söngleikjalífi Lundúnaborgar og svo mætti lengi telja.

Að lokinni þessari helgarupphitun á Rás 2 byrjaði ballið fyrir alvöru. Tvímenningarnir fluttu sig yfir á Aðalstöðina og X-ið, fóru að kalla sig Tvíhöfða og sendu út óborganlegt efni á hverjum sumarmorgni frá 9-12. Haustið 1998 lífguðu þeir upp á skammdegið með því að byrja að grínast líka yfir vetrartímann. Upp frá því hafa þeir verið í loftinu alla virka morgna frá 7-11 með nokkurra vikna óbærilegum pásum af og til.

Og þvílík snilld alltaf hreint. Litla lagið okkar þar sem Jón Gnarr söng um gamla menn sem fóru niður í bæ til að fá sér pylsu. Ferskeytluhornið þar sem félagarnir kváðust á í bullvísum og hlógu síðan sama uppgerðarhlátri og hljómar á öllum vísnamótum í einhverjum héruðum úti á landi. Halldór Hauksson með klassíska hornið, nördinn sem svaraði fyrir sig. Eineltið gegn Selmu og Eyþóri Arnalds. Símtölin til útlanda. Drykkfelldi yfirkennarinn sem svaf með unglingsstelpum, grenjukerlingin, hrekkjalómafélaginn rasíski úr Vestmannaeyjum, leiðindakarlinn sem leiðrétti málvillur og allt hitt fólkið í Smásálinni. Gífurleg stórfrétt á staðnum, Sjálfstætt fólk, Tvíhleypan, Ástir á Borgarspítala, Kennedy-sjónvarpsstöðin, Grillhornið, Kaffitilfinningar og allt hitt sem var líka frábært.

En síðast en ekki síst, það langfyndnasta og besta af öllu; samtölin þeirra á milli þar sem enginn naut friðhelgi, allir voru aðhlátursefni og yfirleitt líka hálfvitar. Oftar en ekki hittu þeir líka naglann á höfuðið enda er fólk fífl upp til hópa.

Og nú er það búið og eftir standa fíflin. Auðvitað vonar maður innilega að einhvern tíma snúi Tvíhöfði aftur, vonandi þá hjá fyrirtæki sem hendir þeim ekki út í horn og lætur þá lúta lögmálum og heimspeki einhverra fugla sem vilja helst endurverkja Tvo með öllu með Jóni og Gulla út um allt og láta hryllinginn á Bylgjunni og FM 957 hljóma margfalt á öllum tíðnum.

En takk, Tvíhöfði. Takk kærlega, Jón og Sigurjón. Þið voruð undantekningin í andleysinu.

Birtist á Pólitík.is 5. mars 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home