Ástríðufullur forseti

Chirac hefur ýmis tromp á hendi sér sem hann er nú þegar farinn að spila út gegn Jospin og bandamönnum hans í vinstri stjórninni. Þar ítrekar hann tölur sem sýna fram á aukna glæpatíðni, meira atvinnuleysi og versnandi frammistöðu Frakklands í samkeppni við aðrar Evrópuþjóðir. Allt saman eru þetta innanríkismál sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa haft á sinni könnu en forsetinn hefur ekki komið beint að.
Andstæðingar Chiracs hafa samt sem áður úr nógu að moða. Ýmis spillingarmál, sem tengjast forsetanum beint eða óbeint, skjóta upp kollinum reglulega og margir spyrja hvort ekki sé hræsni að forseti sem sjálfur hirðir ekki um að svara til saka sé að hneykslast á aukinni glæpatíðni og fara fram á hertar refsingar. Dómari, sem farið hefur með rannsókn fjölda mála þar sem forsetinn kemur við sögu, sagði fyrir skemmstu að Chirac ætti með réttu að vera í margfalt verri málum en Nixon var þegar hann flækti sig í vef Watergate-hneykslisins alls og neyddist í kjölfarið til að segja af sér. Reyndar ber að geta þess að forsetinn er fjarri því einn um að vera vændur um spillingu. Vinstri menn þykja t.a.m. líka hafa ýmislegt óhreint í sínu pokahorni. Það er því ekki endilega víst að þeir hætti á það að rúlla boltanum í spillingarumræðunni á mikla ferð, þeir gætu nefnilega lent undir honum sjálfir.
Þá heldur forsetinn upp á sjötugsafmæli sitt í lok þessa árs og hafa menn honum mótfallnir bent á að hann muni þá ljúka komandi kjörtímabili hálfáttræður (kjörtímabil forseta verður héðan í frá fimm ár í stað sjö ára til þessa). Honum, og frönsku þjóðinni, sé því hollara að hleypa yngri mönnum að sem eiga það ekki á hættu að vera farnir að kalka á miðju kjörtímabili.
Það á eftir að koma í ljós hvort fólkinu finnst yfirlýsingar forsetans um ástríðufulla köllun til þjónustu við frönsku þjóðina trúverðugar í ljósi þeirra spjóta sem standa á honum og benda í mörgum tilvikum fremur til ástríðufullra starfa í eigin þágu og flokks síns en í þágu þjóðarinnar og ríkisins.
Birtist á Pólitík.is 1. mars 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home