Skammsýni og misskilin góðvild

Sem betur fer hafa Íslendingar öðlast ögn meiri víðsýni með tímanum. Fólk þekkir betur til umheimsins en áður var og er opnara fyrir erlendum straumum. Það leiðir flesta yfirleitt að þeim sjálfsögðu sannindum að Íslendingar eru ekkert merkilegri en fólk annars staðar frá, þvert á fyrri kenningar. Hins vegar eimir enn þá eftir af grobbi og þröngsýni hér og þar.
Egill Helgason tók gott dæmi á Strikinu um daginn. Hann gerði þar að umtalsefni þau „slæmu tíðindi“ að samkvæmt dómi frá Evrópu mætti ekki mismuna íslenskum bókum og erlendum bókum innan Evrópska efnahagssvæðisins - ekki einu sinni á Íslandi. Þetta finnst sumum ráðamönnum þjóðarinnar vont að heyra. Íslenskar bókmenntir eiga enda að vera svo miklu merkilegri og betri en bókmenntir annarra þjóða enda erum við svo ofboðslega mikil bókaþjóð.
Slík þröngsýni og boruháttur er hins vegar í anda þeirra sem styst eru komnir í þróuninni. Menningarsamfélögum farnast yfirleitt betur eftir því sem færri höft eru sett og fleiri gáttir þau opna fyrir ferskum straumum úr öllum áttum. Samfélag sem reynir að þvinga næringu heiman frá upp á fólkið sitt er ekki líklegt til að uppskera mikið meira en ómerkilega endurvinnslu af menningu sinni og list.
Alþingismenn halda kannski að þeir séu að gera menningu landsmanna mikinn greiða og að rithöfundar landsins skáni til dæmis við það að bækur þeirra njóti sérkjara. Sé eitthvað í þá varið á annað borð má hins vegar telja nánast fullvíst að þeir séu sprotnir upp einmitt vegna þess að þeir hafi almennt fremur sótt í erlendar bókmenntir og fróðleik utan úr heimi sér til þroska og innblásturs en niðurgreitt innlent efni (þó það geti dugað þokkalega svo langt sem það nær). Enda er ekkert óeðlilegt að heil veröld ali yfirleitt af sér miklu fleiri áhugaverð og góð verk en einstök fámenn samfélög.
Halldórs Laxness er víða minnst þessa dagana. Hann var vissulega hæfileikaríkur maður en hann hefði sjálfsagt strandað fljótlega ef erlendir straumar samtímans hefðu ekki sífellt sogast inn í flestöll verk hans og litað þau sterkum litum. Það sama má segja um fleiri góða íslenska listamenn, t.a.m. Björk og Sigur Rós. Hversu langt ætli þau hefðu náð með því að hlusta bara á innlenda dægurtónlist? Íslensk menningararfleið kann að vera grunnuppsprettan hér og þar en hún drífur ekki langt ein og sér.
„Jákvæð mismunun“ íslenskra og erlendra menningarstrauma er því misskilin góðvild ráðamanna sem heftir eðlilegt flæði þess besta sem er á boðstólnum á hverjum tíma og elur af sér staðnaða og hallærislega samtímamenningu þegar til lengri tíma er litið.
Birtist á Pólitík.is 26. apríl 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home