Framtíðarstefna eða hreppapólitík

Þar sem markaðir opnast og menningarsvæði þenjast út gefur það augaleið að samkeppni er ekki heldur jafn bundin ríkjum eða svæðum. Baráttan um bitana ríkir heimshorna á milli þar sem einstök ríki geta ekki lengur treyst á það að þeirra fjárfestingar og þeirra fólk velji sínar heimaslóðir bjóðist eitthvað betra annars staðar.
Í þessu sambandi hefur því verið haldið fram í tilviki Reykjavíkur að hún eigi nú miklu frekar í bullandi samkeppni við útlönd en önnur íslensk sveitarfélög um fólk og fjármagn. Þessi frasi um það að ungir og menntaðir Íslendingar séu allt eins líklegir til að feta sína framabraut í útlöndum kann að hljóma eins og marklaus klisja. Þetta er hins vegar staðreynd.
Reykjavík verður að gera sér grein fyrir því að hún þarf að vinna fyrir sínu fólki. Það er ekki jafn sjálfsagður hlutur og áður var að þjóðernið ráði því hvar menn ákveða að búa og starfa. Fólk leitar frekar þangað þar sem tækifærin bjóðast best og umhverfið er þeim hentugt. Þessi þróun mun halda áfram og gera samfélögum enn erfiðara fyrir að halda í fólk á forsendum uppruna og þjóðernis. Reykjavík þarf því á öllum sínum mætti að halda til að hún geti reynst góður kostur í alþjóðlegri samkeppni um verðmætt vinnuafl.
Núverandi borgaryfirvöld hafa að nokkru leyti gert sér grein fyrir þessum nýja veruleika. Nokkur stór skref hafa verið stigin, eitt það stærsta þegar ákveðið var Vatnsmýrin skyldi notuð undir annað en fuglahreiður og flugbrautir, reyndar eftir allt of langan tíma og kannski of seint. Aðalandstaðan við uppbyggingu öflugrar og samkeppnisfærrar höfuðborgar hefur hins vegar komið úr óvæntri átt - frá ríkisstjórn Íslands.
Henni er stýrt af íhalds- og framsóknaröflum sem styðja við bakið á úreltri og afturhaldssamri byggðastefnu. Hún miðar að því að draga með valdboði úr krafti og samkeppnisstöðu höfuðborgarinnar með því til dæmis að svifta hana störfum og verkefnum og flytja þau á fábreytilega staði sem fólk vill ekki búa á og er í óðaönn að flýja.
Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins er fylgjandi þessari fortíðarstefnu. Skemmst er til dæmis að minnast þess að hann lagði til að vinsælasta útvarpsstöð landsins yrði flutt frá höfuðborginni norður yfir heiðar án þess að fyrir því væru nokkrar sýnilegar ástæður. Og nú ætlast hann til þess að fólk telji hann trúverðugan sem nýjan málsvara Reykvíkinga í harðri samkeppni við erlend borgarsamfélög.
Reykjavík má ekki við slíkum fulltrúum gamalla viðhorfa. Hún þarfnast djarfra stjórnenda og ötulla málsvara sterkrar höfuðborgar. Þar er Reykjavíkurlistanum undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur mun betur treystandi eins og er.
Birtist á Pólitík.is 12. apríl 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home