29.3.02

Þjóðarmorð í skjóli lyga og blekkinga

Kastljós heimspressunnar beinist þessa dagana einu sinni sem oftar að Miðausturlöndum. Undanfarið hefur Anthony Zinni reynt að miðla þar málum fyrir hönd Bandaríkjastjórnar. Það hefur orðið til þess að allmargir fjölmiðlar fyllast venjubundnum vonum um það að hlutirnir séu að þokast varanlega í friðarátt milli Ísraels og Palestínu. Þetta er hefðbundinn barnaskapur, kannski fremur bundinn óraunhæfum óskum en nokkrum votti af raunveruleikamati. Nú þurfti til dæmis ekki meira til en það að hinn ógeðfelldi fjöldamorðingi Ariel Sharon fékkst til þess að hætta tímabundið að ofsækja og drepa saklaust fólk í palestínskum flóttamannabúðum. Þar að auki greip hann sú góðmennska að hleypa Arafat út úr húsi eftir þriggja mánaða veru í stofufangelsi.

Sharon vill ekki semja
Menn virðast loka augunum fyrir því að Ariel Sharon ætlar ekki að stuðla að friði. Hann hefur ekki nokkurn áhuga á því. Hann ætlar síst af öllu að semja við Palestínumenn eða gefa eftir svo mikið sem einn hektara af Vesturbakkanum, svæði sem Ísraelsmenn hafa í herkví í trássi við allar alþjóðasamþykktir og eiga ekkert tilkall til. Sharon skipar sér hins vegar í hóp flestra þeirra leiðtoga sem Ísrael hefur haft síðan ríkið var stofnað að því leyti að markmið þeirra er ekki friður við nágranna þeirra. Herkænska þeirra hefur falist í því að svíkja samkomulög og ljúga því blákalt að öllum öðrum að þeir fari í friði. Yfirlýsingar þeirra ber því yfirleitt að taka álíka alvarlega og þær sem Stalín sendi frá sér um dýrðina innan hans ríkis meðan á mestu ofsóknunum þar stóð. Þarna tala stríðsherrar sem þjóna annarlegum málstað en alls ekki sannleikanum.

Stjórnarfar við annarlegar aðstæður
Stjórnvöld sem hafa hreina samvisku þurfa ekki að ljúga eða svíkja. Þau stjórna í nafni réttlætis og jafnréttis. Sjálf tilvera Ísraelsríkis er hins vegar frá upphafi byggð á mjög óréttlátum forsendum. Ríkið grundvallast á frekju, ofbeldi og tilhæfulausum yfirgangi. Forsenda ríkisins hefur alla tíð verið sú að hrekja þá sem fyrir voru burt með valdi. Tilvera Ísraels hefur að miklu leyti staðið og fallið með því forgangsverki. Svo einfalt er það í raun. Þess vegna neyðast ísraelsk stjórnvöld ávallt til þess að beita óheiðarlegum og lymskulegum vinnubrögðum. Langtímatakmark flestra leiðtoga Ísraelsríkis er og hefur verið ríki Gyðinga á öllu því svæði sem þeir ráða nú yfir (að herteknum svæðum meðtöldum). Arabar eru ekki inni í framtíðarmynd þessa Gyðingaríkis. Þeir eru talin ógn við öryggi, samstöðu og samkennd þessa draumaríkis.

Raunhæfari lausnir gegn rasískum draumum
Að sjálfsögðu hafa margir skynsamlega þenkjandi Ísraelar beint á raunhæfari leiðir, ekki síst til þess að skapa stöðugleika og friðsamlegt andrúmsloft fyrir Ísraelsmenn sjálfa. Brotthvarf til viðurkenndra landamæra ríkisins og viðurkenning á rétti Palestínumanna væri t.d. ágætt fyrsta skref. Ariel Sharon er hins vegar engan veginn í hópi þessa fólks. Hann gengur mjög framarlega í flokki þeirra skýjaglópa sem deila rasíska draumnum um áðurnefnda framtíðarmynd Ísraelsríkis án Araba. Og hann dreymir ekki bara þessa hástemmdu drauma, stefna hans og öll verk miðast markvisst við þá.

Sharon og Milosevic
Sharon er því álíka trúverðugur í yfirlýsingum sínum og Milosevic hefði verið ef hann hefði ávallt sagst vera að stefna að því að vinna að friðsamlegu samkomulagi við Kosovo-Albana í miðjum þjóðarmorðunum þar. Þar gripu öfl innan alþjóðasamfélagsins að lokum til sinna ráða. Sharon og félögum hefur hins vegar tekist að fá þorra þjóða til að gleypa við því bulli að þeirra þjóðarmorð og ofsóknir séu nauðsynleg og réttlætanleg varnarstefna.

Þeir sem trúa stríðsáróðri Sharons ættu því með réttu líka að kyngja ótuggðum réttlætingum annarra valdagráðugra valdhafa víða um heim þegar þeir framkvæma sín andstyggilegu voðaverk.

Birtist á Pólitík.is 29. mars 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home