Millilent í Haag

Svo mörg voru þau orð. Í þeim opinberast einu sinni sem oftar áætlun ísraelsku stjórnarinnar sem yfirleitt er þó aðeins sögð beinast gegn hryðjuverkastarfsemi gegn ísraelskum borgurum en beinist að sjálfsögðu gegn palestínsku þjóðinni allri og hefur alltaf gert í stjórnartíð rasistans Ariels Sharons og skósveina hans.
Nú er það síðast að frétta að Sharon vill hætta við að hleypa sendinefnd SÞ inn í rústirnar í Jenín þar sem Ísraelsher er vændur um fjöldamorð og útrýmingu á flestöllum merkjum um samfélag fólks. Á sama tíma heldur Ísraelsstjórn því fram að hún hafi ekkert að fela. Hver trúir slíkum þvættingi?
Fái þessi sendinefnd SÞ einhvern tíma að stunda sínar rannsóknir óáreitt er nánast öruggt að hún mun hafa hryllilegar fréttir að færa af innrás Ísraelshers og svipmyndir líkar þeim sem blöstu við heimsbyggðinni af fórnarlömbum stríðsins í fyrrum Júgóslavíu eru því miður líklegar til að blasa aftur við í fjölmiðlum.
En kannski koma þær aldrei fyrir nokkurra manna sjónir og atburðirnir að undanförnu á Vesturbakkanum verða þá aldrei meira en óstaðfestar fullyrðingar sem eru þaggaðar niður með skipulögðum hætti. Það er nefnilega ekki sama hver fremur glæpinn og í hvaða löndum stjórnandi morðanna á vini.
Bandaríkjaforseti er sjálfum sér líkur sem fyrr. Hann beitir því herbragði að kenna Arafat um allt og treystir sem fyrr á viðhald heilaþvottarins sem fjölmiðlar og áhrifamenn halda skipulega að almenningi. Svo ætlar hann að taka á móti Sharon í Bandaríkjunum á næstunni til að ræða friðartillögur. Óskandi væri þá að vélin hans Sharons millilenti í Hollandi þannig að hægt væri að skutla ísraelska forsætisráðherranum til Haag þar sem hann yrði settur í járn og látinn svara fyrir stríðsglæpi sína.
Birtist á Pólitík.is 2. maí 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home