Gott framtak

Ekki virðist vanþörf á framboði sem þessu til þess að reka á eftir stóru listunum tveimur í skipulagsmálum en framsækni og djörfung hefur verið sorglega lítil í skipulagsstefnu Reykjavíkur undanfarna áratugi. Reyndar hefur varla verið hægt að tala um stefnu í skipulagsmálum því að þau mál hafa yfirleitt einfaldlega verið leyst með því að löndum hefur verið spreðað í allar áttir í útsveitum borgarinnar sem þenur þannig allt út í hið óendanlega. Þetta hefur haft þær afleiðingar að Reykjavík er gisinn svefnbær á landflæmi sem margra milljóna manna borg gæti komið sér vel og þægilega fyrir á.
Haldi einhver að hugmyndir Höfuðborgarsamtakanna byggi á óraunhæfum draumórum skal dæmi nefnt sunnan úr Evrópu. Undirritaður er nýkominn heim frá nokkurra mánaða dvöl í Barcelona. Sú borg hefur vaxið og dafnað ótrúlega hratt á mjög skömmum tíma. Hún er að verða einn vinsælasti áfangastaður í Evrópu hjá ferðamönnum í svonefndum borgarferðum og fyrirtæki og „verðmætt“ fólk flykkist til borgarinnar. Ástæðan er að um nokkurt skeið hefur sú meðvitaða stefna verið rekin hjá borgaryfirvöldum þar að búa til mannvæna borg. Þar hafa menn ekki látið innihaldslausa tískufrasa nægja heldur hafa þeir látið verkin tala.
Niðurnídd hverfi hafa verið jöfnuð við jörðu og ný byggð í staðinn. Þar má nefna Ólympíuhverfið sem reist var við höfnina fyrir Ólympíuleikana fyrir tíu árum síðan. Þar var fyrir sóðalegt hafnarhverfi sem enginn hætti sér inn í eftir að skyggja tók. Þar blómstrar nú viðskiptalíf borgarinnar og engin merki eru um þá fráhrindandi sýn sem áður blasti við. Annað dæmi er Raval-hverfið sem er þessi misserin að gangast undir svipaða upplyftingu.
Allar framkvæmdir í Barcelona miða markvisst að þörfum borgarbúa og því markmiði að þeir kunni vel við sig í borginni og að það sé eftirsótt að búa þar. Borgaryfirvöld gera þetta vegna þess að þau eru að reyna að ná til sín fjármagni og fólki, sem hefur eitthvað fram að færa, annars staðar frá. Það er líka yfirlýst stefna. Barcelona ætlar ekki að verða undir í þessari samkeppni og þess vegna fór hún af stað og það hefur skilað árangri. Hins vegar verður vinnan að halda áfram og það veit borgarstjórnin í Barcelona líka. Þess vegna er nú þegar búið að ákveða næstu stórhuga plön og þess er einungis beðið að röðin komi að þeim.
Reykvísk yfirvöld vita e.t.v. að þau eiga í samkeppni við borgarsamfélög annars staðar. Hins vegar eru aðgerðirnar til þess að laða að sér fólk og búa til alvöru borg allt of varfærnar og miðast oft við eitthvað sem á mögulega, kannski að gerast eftir einhverja áratugi. Þá er hins vegar hætt við því að ungir Reykvíkingar verði jafnvel flognir úr hreiðrinu eitthvert annað þar sem betur er komið til móts við kröfur þeirra og lengra er seilst til að búa gróskurík borgarsamfélög.
Birtist á Pólitík.is 13. maí 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home