Uppi í stúku

Klúður eða áhugaleysi heimamanna?
Þetta kemur mjög á óvart miðað við þá eftirvæntingu fyrir HM sem allir héldu að til staðar væri í Asíu. Þetta er auðvitað stórmál, raunar svo stórt að sjálft vikuritið Newsweek lagðist í rannsóknarblaðamennsku til að komast að kjarna málsins. Niðurstaðan er eiginlega engin. Líklega er skýringin margþætt. Stórum hluta skuldarinnar er skellt á ferðaskrifstofu í Evrópu sem átti að sjá um miðasölumálin en klúðraði því þannig að fjöldinn allur beið í röð eftir miðum sem ekki voru til staðar þar sem þeir lentu milli þilja einhvers staðar í illa smíðuðu kerfi. Afleiðingarnar þær að enginn sat í sætunum og allir töpuðu og allir eru pirraðir. Sjálfsagt hefur áhugi Kóreubúa og Japana á fótbolta líka verið ofmetinn (minnir óneitanlega á hálftóm íþróttahús á HM í handbolta á Íslandi sem öll heimsbyggðin átti að flykkjast á hér um árið). Japanir hafa mestan áhuga á hafnabolta og í Suður-Kóreu mæta í mesta lagi þrjúþúsund manns á deildarleiki, svipað og á góðum degi í Vesturbæ Reykjavíkur.
KR treður sér á HM
Talandi um KR, þá hefur það líka vakið athygli þeirra sem rýnt hafa upp í stúkur á HM að fána Vesturbæjarstórveldisins hefur brugðið fyrir í baksýn öðru hvoru. Þetta hefur yljað þeim sem þetta skrifað óskaplega um hjartarætur, bara eins og nákominn vinur sé að veifa til manns. Svona er að vera ofurseldur þessu blessaða félagi. KR-merkið þarna einhvers staðar uppi í stúku var til dæmis um það bil eina gleðiefnið þegar að Danir voru komnir ansi nálægt niðurlægingu, þremur mörkum undir strax í fyrri hálfleik gegn Englendingum á laugardaginn var og minntu skuggalega mikið á Íslendinga á Parken síðastliðið haust. Förum ekki nánar út í það. Ólíkt að því er virðist flestum öðrum Íslendingum hvatti ég nefnilega Englendinga ekki til dáða. Verð þó að viðurkenna að þeir spiluðu fantagóðan bolta. Nú bíður maður bara óþolinmóður eftir viðureign Tjallanna og Brassanna sem væntanlega verður einn af hápunktum heimsmeistaramótsins. Og vonast eftir brasilískum sigri, þó að maður þori varla að segja það innan um alla þessa aðdáendur Beckhams og félaga.
Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home