5.6.02

Suður Kórea-Tyrkland?

Þegar þetta er skrifað eru enn þá örfáir klukkutímar í fyrri undanúrslitaleik heimsmeistarakeppninnar og því má ef til vill segja að þessar vangaveltur muni heyra sögunni til strax eftir hádegi í dag.

Eins og staðan er núna er auðvitað alls endis óvíst hvaða lið mætast í úrslitaleiknum á sunnudaginn næstkomandi. Hins vegar virðast flestir vera búnir að gera sér í hugarlund að undanúrslitaleikirnir fari eftir bókinni og að gömlu knattspyrnustórveldin Þýskaland og Brasilía etji kappi um gullið. Kóreubúar eru reyndar búnir að gera Evrópuveldunum þvílíka skráveifu að Þjóðverjar geta ekki talist eins öruggir en fáir eiga von á tyrkneskum sigri, nema kannski bjartsýnustu menn við Bospórussund.

En – ef svo færi hins vegar að óvænt úrslit yrðu í báðum leikjum stendur heimsbyggðin frammi fyrir úrslitaleik Suður-Kóreu og Tyrklands! Þrátt fyrir að flestir geti tekið undir að óvænt afrek einstakra liða sé ómissandi hluti af stórmótum, eins og HM, er þetta kannski of langt gengið. Ekki það að nokkuð sé við því að gera ef þessi staða kemur upp. En það myndi samt skjóta nokkuð skökku við ef að lið sem eru í 22. sæti (Tyrkland) og 40. sæti (Suður-Kórea) á styrkleikalista HM kepptu um það hvort þeirra er best í heimi.

Þarna kemur íhaldssemin líka inn í. Þrátt fyrir að óvænt úrslit séu skemmtileg eru nefnilega takmörk fyrir öllu. Kannski það sé einmitt þessi íhaldssemi sem er uppspretta pirrings um alla Evrópu um þessar mundir þar sem að fólk neitar að trúa því að Asíuþjóð sé komin alla leið í undanúrslit. Svona hafi þetta aldrei verið og þess vegna eigi þetta einfaldlega ekki að geta gerst. Þess vegna vælir hver í kapp við annan um dómaraskandal og jafnvel allsherjarsamsæri FIFA í tapsárindum sínum.

Svipað var uppi á teningunum þegar Danir stálust til þess að verða Evrópumeistarar hér um árið eftir að hafa komist inn í keppnina bakdyramegin. Þá urðu allir íhaldssamir knattspyrnuaðdáendur svekktir og gott ef formaður UEFA sagði ekki að knattspyrnan hefði beðið ósigur vegna þess að lélegt lið hefði unnið.

En svona er þetta bara. Það eru allir þessir óvæntu hlutir sem gera fótboltann að skemmtilegustu íþrótt í heimi. Þetta má samt ekki fara út í vitleysu. Þannig að ég bið vinsamlega um Þýskaland-Brasilíu á sunnudaginn, takk. Hrokafulli Evrópubúinn tekur ekki mark á neinu öðru.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home