5.6.02

Latínó fótboltaæðið


Ástríkur hefði áreiðanlega sagt að þessir Spánverjar væru klikk ef hann hefði orðið vitni að því fótboltaæði sem ætíð er viðvarandi í því landi. Fótboltinn er tekinn háalvarlega, stúderaður eins og fræðigrein, skeggræddur af sama hita og hápólitísk deilumál og ræður jafnmiklu um gleði og sorgir fólks og atburðir í fjölskyldulífinu.

Undirritaður er til að mynda nýkominn heim frá nokkurra mánaða dvöl í Barcelona þar sem fótboltageðvikin jaðrar við maníu – ja, öllu heldur er manía. Hvar annars staðar hefði til dæmis flugeldum verið skotið á loft um leið og búið var að flauta af og Real Madrid var búið að tapa bikarúrslitaleiknum? Og hversu marga staði finnur maður þar sem að 20-30 síðna aukablöð fylgja katalónsku dagblöðunum daginn eftir leik hjá borgarliðinu þar sem leikurinn er krufinn niður í öreindir – og það bókstaflega!

Það er því alveg týpískt að umræðan á Spáni þessa dagana snýst einkum um það hvort það séu leikmenn Real Madrid eða Barcelona sem skora mörkin og leggja þau upp. Þessi rígur milli liða og héraða er því ekki einu sinni er grafinn meðan að landsmenn ættu að sameinast um landsliðið á stórmótum. Hann er kannski ein ástæða þess hversu slappir Spánverjar hafa oft verið á stórmótum miðað við þann mannskap sem yfirleitt hefur verið til staðar og þann góða árangur sem spænsk félagslið ná einatt í Evrópukeppnunum. Þó hlýtur meira að koma til.

Nú eru Spánverjar komnir í átta liða úrslit, lengra en oft áður. Næstu andstæðingar þeirra verða Ítalir, að því gefnu að þeir vinni spútnikklið Suður-Kóreu. Þar eiga Spánverjar harma að hefna síðan fyrir átta árum þegar þessi sömu lið mættust einmitt líka í átta liða úrslitum og Ítalía hafði sigur 2-1. Bæði þessi lið hafa hins vegar verið mjög ósannfærandi á köflum á þessu heimsmeistaramóti þannig að það verður spennandi að fylgjast með hvoru liðinu reiðir betur af á laugardaginn kemur. Allt auðvitað að því gefnu að Ítalir vinni Suður-Kóreubúa á þriðjudaginn.

Á Ítalíu er fótboltaæðið svo sem ekkert á heilbrigðara stigi þannig að ráðlegast væri fyrir hvort liðið sem kynni að tapa að hafa hægt um sig næstu vikur heima fyrir þar sem sársvikin alþýða og blóðþyrstir fjölmiðlar munu væntanlega ekki beita neinum vettlingatökum í sinni skefjalausu gagnrýni.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home