Danska dýnamítið

Netútgáfur dönsku og frönsku blaðanna voru ekkert að flækja málin í gærmorgun þegar úrslitin í leik þjóðanna lágu fyrir. Vi er videre – við erum komnir áfram - sögðu Danirnir en hjá Frökkunum mátti lesa Nous sommes éliminées - við erum úr leik. Ef marka má frammistöðu Dana hingað til er ef til vill eðlilegt að menn spyrji sig hins vegar hvort að það sé enn og aftur orðin sprengihætta af „Danska dýnamítinu“.
„Vi er røde, vi er hvide...“
Danir geta reyndar ekki státað af mikilli reynslu á HM en þetta er einungis í þriðja skiptið sem þeir eru með. Fyrsta skiptið er mönnum enn þá í fersku minni, sem það upplifðu á annað borð. Það var á því herrans ári 1986 sem hið eina og sanna „Danska dýnamít“ mætti vongott til leiks í Mexíkó. Leikgleði og fjör einkenndi allt í kringum liðið. Baráttulagið Re-Sepp-Ten („Vi er røde, vi er hvide“) gerði allt vitlaust og hertók meðal annars toppsæti hins víðfræga Vinsældarlista Rásar 2 um margra vikna skeið. Frjálsræðið var ríkjandi í hópnum og enginn fann að því að þeir skyldu svolgra í sig nokkrum bjórum fyrir svefninn kvöld hvert á meðan á keppninni stóð. Aðalmarkaskorarinn þeirra, hinn litríki Preben Elkjær Larsen, bætti reyndar um betur og stóð í harðri samkeppni við Marlboro-manninn um afköst í tóbaksreykingum, fór með þrjá pakka á dag - samt nær áreiðanlega af Prince. Hann lét reyndar sitt ekki heldur eftir liggja þegar að glasinu kom. Sagan segir að hann hafi verið kallaður inn á teppi þegar hann lék með Köln í Bundesligunni þýsku. Það hafði sést til hans á næturklúbbi kvöldið fyrir mikilvægan leik með viskíflösku hálftóma sér við hlið. Hann mótmælti hástöfum og sagðist alls ekki hafa verið að drekka neitt viskí. Hann var að drekka vodka!
Endurtekur sagan sig?
Danir tóku riðilinn í nefið á HM ´86 eins og segja má að þeir hafi líka gert núna. Riðillinn þá var líka dauðariðill, andstæðingarnir meðal annars Þjóðverjar sem höfðu farið í úrslit á HM fjórum árum áður og voru taldir sigurstranglegir. „Danska dýnamítið“ sprengdi Úrúgvæja í tætlur 6-1 og vann síðan nauman sigur á Skotum. Að lokum kom síðan glæsilegur sigur á geysisterkum Þjóðverjum 2-0 - eins og á Frökkunum nú. Því má svo til gamans bæta við að þá eins og nú höfðu þeir íslenskættaðan hauk í horni. Þá var það fyrirliðinn Frank Arnesen en nú er það markamaskínan Jon Dahl Tomasson.
Bjartsýnustu Danir voru jafnvel farnir að trúa því að þeirra menn kæmust jafnvel alla leið í úrslitaleikinn en annað kom á daginn. Þar sannaðist það einu sinni sem oftar á HM að þegar í útsláttarhlutann er komið er hver leikur úrslitaleikur þar sem árangur í riðlakeppninni fleytir liðum ekki nema takmarkað áfram. Dýnamítið steinlá nefnilega strax fyrir Spánverjum 5-1 þar sem „Gammurinn“ Emilio Burtragueño tók að sér yfirumsjón útfararinnar.
Danmörk-England
Eitthvað svipað gæti hent Dani núna þar sem nokkuð ljóst er að andstæðingur Dana í 16-liða úrslitum er mjög sterkur - stjörnum prýtt lið Englendinga.
Standist Danirnir hins vegar næstu raun getur auðvitað allt gerst. Þeir urðu jú Evrópumeistarar um árið. Þó það segi kannski ekki mikið núna þá veitir það þeim samt þá vissu að þeir geta náð alla leið á stórmótum. Þá má ekki gleyma því að þeir gátu vel við unað fyrir fjórum árum í Frakklandi, féllu út með sæmd í átta liða úrslitum fyrir þáverandi heimsmeisturum Brasilíu eftir hörkuleik.
Það má því vel vera að danska pressan geti slegið fyrirsögninni Vi er videre upp að minnsta kosti einu sinni enn og jafnvel oftar. Ég eiginlega vona það.
Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home