12.11.02

Hetjan Hrönn

Á undanförnum árum hafa sumir viljað halda því fram að hefðbundin kvennabarátta sé orðin úreld þar sem að fullt jafnrétti kynjanna sé í raun komið á. Það þarf þó ekki að týna til mörg dæmi til að sýna fram á að víða er enn pottur brotinn og jafnvel hefur staðan versnað á stöku stað. Þar má nefna klámvæðinguna þar sem óvönduðu fólki hefur tekist að koma þeirri hugmynd á framfæri að klám sé yfirleitt aðeins saklaust og skemmtilegt gaman sem haldist í hendur við aukna víðsýni í kynlífsmálum. Þeir sem voga sér að finna að þessari hræðilegu ranghugmynd fá svo á sig þann stimpil að þeir sýni tepruskap og kveini að óþörfu.

Fegurðardýrkunin
Önnur birtingarmynd, en ekki óskyld, er sú fegurðardýrkun sem síst hefur dregið úr með tímanum. Þar er alið á þeirri hugmyndafræði að mestu skipti að líta óaðfinnanlega út til að komast áfram í lífinu. Þessi hugmyndafræði beinist fyrst og fremst að ungum stúlkum. Á þeim dynja fyrirmyndir sem eru ,fótósjoppaðar‘ og stílíseraðar glansmyndir af fyrirsætum og stjörnum úr skemmtanabransanum. Stúlkurnar fá þannig að vita það beint og óbeint að besta og fljótvirkasta leiðin til frama sé að vera sætur. Fegurðarsamkeppnir hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar í því að viðhalda þessari hugmynd. Þangað hafa flykkst stelpur sem einmitt sjá von sína til skjóts frama liggja í því að standa á sundbolum og háhæluðum skóm fyrir framan einhverja dómnefnd sem metur hvort þær samræmist fyrirframgefnum fegurðarstöðlum og hvort þær séu nógu undirgefnar til að láta slíkt yfir sig ganga.

„Nútímalega fegurðarsamkeppnin“
Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland.is sagðist ætla að gjörbreyta þessu öllu. Nú yrðu stúlkurnar ekki aðeins valdar eftir útliti heldur einnig eftir metnaði og sjálfstæði. Hins vegar breyttist eðli keppninnar auðvitað ekkert við þetta því að áfram var verið að „keppa í fegurð“. Hugmyndafræðin um það að „aðalatriðið væri að vera sætur“ var jafngild og áður. Síðan hefur margkomið í ljós að munurinn á Ungfrú Ísland.is og hinum gamalgrónu fegurðarsamkeppnum er sami og enginn. Undir þetta tekur meira að segja einn af þremur skipuleggjendum fyrstu keppninnar sem hætti einmitt þegar honum varð þetta ljóst í kjölfar hennar.

Nútíminn kvikmyndar fortíðina
Hafi einhver enn þá efast þá verður afhjúpunin alger í heimildarmynd Hrannar Sveinsdóttur, Í skóm drekans, sem nú hefur loks fengist til sýningar. Aðalpersónan Hrönn er nútímakona; sjálfstæð og atorkusöm. Nútímaleg gildi hennar rekast hins vegar á vegg þegar í fegurðarsamkeppnina kemur. Þar mætir hún því viðhorfi að það sé ekki innihaldið heldur útlitið sem skipti máli; stelpur eigi ætíð að vera vel til hafðar, penar og passívar í útliti sem og hegðun. Þær mega tala um að þær vilji stuðla að heimsfriði en þær eiga ekki að vera að blanda sér í deilurnar um kvótakerfið eða hálendismálin. - Þær eiga, með öðrum orðum, að halda kjafti og vera sætar.

Þessu býður Hrönn að sjálfsögðu byrginn á sinn hugrakka en jafnframt sérstæða hátt; hún tekur þátt í leiknum til að sýna áhorfandanum fram á hvernig niðurrif þessa fornaldarhugsanaháttar fegurðarímyndarinnar birtist. Hún sýnir fram á hversu hallærislegt og beinlínis óaðlaðandi það er að leggja meiri áherslu á útlitið en karakterinn. Hrönn er nefnilega töffarinn innan um allar stöðluðu týpurnar sem helst eiga að líta upp til Claudiu Schiffer og finnast ekkert athugavert við það að einhverjir Þorgrímar Þráinssynir góni á þær hálfberar til að meta hvort þær séu nógu slank og fínar á skrokkinn.

Útkoman er skemmtileg og hvöss heimildarmynd sem hittir beint í mark. Hún á í raun gríðarlega mikið erindi við alla, en einkum ungt og ómótað fólk, og þá sérstaklega stúlkur, sem fengju þar með að berja augum hina heilbrigðu, sterku og eðlilegu fyrirmynd; manneskju með sjálfsvirðingu sem lifir eftir þeim sjálfsögðu sannindum að mestu máli skipti að vera eitthvað - ekki líta út eins og eitthvað.

Húrra fyrir þér Hrönn, þú ert hetja!

Birtist á Pólitík.is 12. nóvember 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home