Enn á jaðri Evrópu

Dropi í hafið
Þrátt fyrir að Tyrkir hafi afnumið dauðarefsingar er það einungis skref í átt að þeirri stórbættu stöðu mannréttinda sem ESB gerir kröfu um. Meðferð Tyrkja á Kúrdum hefur t.a.m. lítið skánað, þó að Tyrkir hafi reynt að sýna Evrópusambandinu fram á úrbætur sem þeir töldu miklar en ESB fannst aftur á móti smávægilegar. Nýlegt dæmi er þegar Tyrkir mynduðust við að koma til móts við kröfu ESB um viðurkenningu á menningarlegri stöðu minnihlutahópa með því að leyfa Kúrdum að útvarpa á móðurmáli sínu í nokkra klukkutíma á dag. ESB duga hins vegar engar slíkar málamiðlanir og fer möglunarlaust fram á algert jafnrétti minnihlutahópa, eins og Kúrda, á við Tyrki.
Óeðlileg völd hersins
Slæm staða mannréttinda tengist einnig öðru stóru máli sem er veik staða lýðræðis í Tyrklandi. Herinn hefur óeðlilega mikil völd og því til stuðnings má benda á að á síðustu fjörtíu árum hefur hann steypt fjórum ríkisstjórnum af stóli - síðast 1997. Slíkar aðgerðir eru fjarri því litnar hornauga af hinum almenna Tyrkja sem margur hver treystir honum best til að gegna hinu landsföðurlega hlutverki. Viljinn til þess að minnka áhrifavald hersins er því takmarkaður. Tyrkland nær þannig ekki einu sinni að tryggja það algjöra grundvallarskilyrði ESB að landinu sé stjórnað af lýðræðislega kjörnum fulltrúum.
Fleiri hindranir
Auk þess mætti tína til ýmsa pólitískar hindranir á vegi Tyrkja og aðildar þeirra að ESB í náinni framtíð. Samkvæmt mannfjöldaspám er gert ráð fyrir því að íbúar Tyrklands verði orðnir fleiri en íbúar Þýskalands eftir 15 ár. Með inngöngu yrði Tyrkland þar með orðið fjölmennasta ríki ESB og þar af leiðandi með flesta fulltrúa. Ekki er víst að gömlu og grónu veldunum í sambandinu litist of vel á þá breyttu valdastöðu. Þá má benda á deilu Tyrkja við Grikki um eyjuna Kýpur, þar sem Grikkir hafa öll spil í hendi sér sem aðilar að ESB með neitunarvald gagnvart tillögum um ný aðildarríki.
Þegar allt kemur til alls lítur því ekki margt út fyrir að tyrkneskum stjórnvöldum verði að ósk sinn um aðild að ESB í náinni framtíð. Haldi Evrópusambandið grundvallarkröfum sínum til streitu við samningsborðið er meira að segja spurning hvort nokkurn tíma kemur til aðildar Tyrklands að sambandinu. Tyrkland verður því á jaðri Evrópu um nokkurn tíma enn.
Birtist á Pólitík.is 11. október 2002
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home