Enn af Ingibjörgu Sólrúnu

Að vera eða ekki vera... í framboði
Líklegast verður að teljast að hún taki þá ákvörðun að sleppa öllu framboðsbrölti og einbeita sér áfram óskipt að borgarstjórastarfinu. Sú ákvörðun væri að mörgu leyti skynsamleg enda virðist hljómgrunnur pólitískra samherja hennar og almennings fyrir framboðshugmyndinni ekki vera mikill þegar allt kemur til alls, en nokkur meirihluti kjósenda Reykjavíkurlistans virðist vera mótfallinn hugmyndinni, skv. könnun DV í gær.
Þið munið hann Þjóðvaka
Menn geta í staðinn bent á hina meintu fylgisaukningu Samfylkingarinnar með Ingibjörgu innanborðs í Kremlarkönnuninni. Heil 34% hljóma vissulega mjög vel. Hins vegar er rétt að benda fólki á að „ef-in” eru mörg og að svona hugmyndir mælast oft vel fyrir í byrjun en svo sverfist af þeim þegar nýjabrumið er fyrir bí. Í því sambandi má minna á feiknafylgi Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur rétt eftir að hann var stofnaður, þar sem þriðji eða fjórði hver maður sagðist ætla að kjósa nýja flokkinn. Útkoman úr kosningunum var hins vegar vel innan við 10%. En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið og jafnaðarmenn ættu að fara varlega í það að halda að einhver 34% séu bara tryggð sísvona. Samfylkingin hefur nógu oft brennt sig á því á sínum stutta ferli.
Fulltrúi Reykvíkinga á þingi
Þrátt fyrir þessar úrtölur allar saman ber ekki að skilja málin þannig að Ingibjörg Sólrún eigi að útiloka allar leiðir til afskipta að næstkomandi þingkosningum. Þar eru margar leiðir færar. Ingibjörg Sólrún er vissulega búin að heita borgarbúum því að hún ætli að sitja í stól borgarstjóra næstu fjögur árin og við það á hún að sjálfsögðu að standa. Hins vegar er ekkert sem segir það að borgarstjóri geti ekki setið á þingi. Margir af fyrrum borgarstjórum Reykjavíkur hafa setið á þingi, síðast Davíð Oddsson forsætisráðherra. Ingibjörg Sólrún hefur áður réttilega bent á að Reykvíkingum veiti ekki af öflugum málsvörum og talsmönnum á þingi. Þar hlyti hún sjálf að vera besti fulltrúi sem hugsast getur fyrir borgarbúa.
Svona í lokin er svo vert að minnast á viðbrögð vinstri grænna sem eru að venju ólund, ósveigjanleiki og afskaplega takmarkað samlyndi við aðra vinstri menn. Það sannfærir mann einu sinni sem oftar í þeirri trú að ókræsilegri samstarfsaðilar Samfylkingarinnar virðast vandfundnir ef kæmi til hugsanlegrar ríkisstjórnarmyndunar í náinni framtíð.
Birtist á Pólitík.is 6. september 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home