Upptaka dauðarefsinga

Sorg og reiði hefur einkennt breskt þjóðlíf síðan að tveggja vikna leit að vinkonunum Jessicu Chapman og Holly Wells endaði í hryllilegri aðkomu nálægt heimabæ þeirra á laugardaginn var. Bretar eru samhuga í hryggð sinni. Hins vegar er það auðvitað misjafnt í hvaða mynd sorgin birtist. Hjá sumum hefur hún birst í hatri og hefndarþorsta sem hefur leitt til þess að mun fleiri geta nú réttlætt fyrir sjálfum sér að dauðarefsingar gætu á ný orðið hentug neyðarúrræði gagnvart glæpamönnum sem fremja sérlega viðurstyggilega og kaldrifjaða glæpi.
Þessi bræði er að flestu leyti skiljanleg enda munu þeir sjálfsagt vera fáir sem finna mikið til með þeim sem fremja glæpi líka þeim sem um er rætt. Það verður hins vegar að hafa það í huga að þarna er um að ræða tilfinningar fólks í uppnámi sem ekki er í ástandi til þess að leggja yfirvegað mat á hlutina frá öllum hliðum.
Yfirvegun og skynsemi
Sem betur fer hefur flestum ríkjum Evrópu að mestu lánast að láta yfirvegun og skynsemi ráða ríkjum í réttarkerfi sínu í stað hefndarþorsta og múgæsingar. Þar hefur afnám dauðarefsingar þótt bera upplýsingu og framþróun merki. Rík áhersla Evrópuríkja á mannréttindi hefur einnig átt stóran þátt í þessari almennu sannfæringu þjóða álfunnar. Því til stuðnings má benda á að Tyrkir neyddust á dögunum til að afnema dauðarefsingu úr sínu réttarkerfi til að komast frekar í náðina hjá samningamönnum ESB. Það reyndist þeim nauðsynlegt enda er bann við dauðarefsingu í aðildarríkjum ESB ófrávíkjanleg grundvallarregla. Vegna þessarar reglu þarf heldur enginn að óttast að skiljanleg reiði margra Breta leiði til flótfærinnar reglubreytingar sem einungis myndi leiða af sér þjóðfélag þar sem tortryggni og hefndarfýsn sæktu á á kostnað skynsemi og skilnings.
Ótti leiðir til reiði...
Evrópubúar ættu að minnsta kosti að hafa dæmin ljóslifandi fyrir sér í nýja heiminum hinum megin við hafið. Þarlendur þjóðfélagsandi verður varla talinn öfundsverður en hann einkennist einmitt af hefndarhug og hörku. Lögmál Gamla testamentisins um auga fyrir auga eru í fullu gildi og hefur vaxið ásmegin frekar en hitt. Þar er alið á neikvæðum tilfinningum í réttarkerfinu, s.s. heift, reiði, hatri og hefnd. Bandaríkjamenn halda að með slíkt að leiðarljósi fari menn nær „réttlátri niðurstöðu“ og að öllum líði betur á eftir.
Því miður fyrir þá er hins vegar líklegt að lífsspeki Yoda, hins aldna Star Wars-spekings, hafi farið nær hinu sanna og rétta: nefnilega að ótti leiði til reiði, reiði leiði til haturs og að hatur leiði aðeins til hins illa. Eða var það ekki einhvern veginn svoleiðis?
Birtist á Pólitík.is 23. ágúst 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home