Lokalausnin?

Hvað svo?
Það er kannski ekkert skrýtið að aðferðir Ísraelsmanna í þessari baráttu séu afkáralegar. Hugmyndafræðin og framtíðarsýnin eru það nefnilega líka. Raunar er öll tilvera Ísraels líka fjarstæðukennd ef út í það er farið. Sharon kann að fagna síðasta sigri sínum en hvernig sér hann fyrir sér framtíð Ísraels? Hvað ætlar hann að halda lengi svona áfram? Hann tryggir það betur og betur með hverjum deginum að þjóðirnar tvær munu ekki getað búið saman í einu ríki í sátt og samlyndi. Hann vill það heldur ekki. Hann vill enga Araba í Ísrael.
„Lebensraum“-áform
Þetta er leið Sharons. Undanfarin skref hafa til dæmis verið að girða Palestínumenn af og setja þá í útgöngubann. Annað lúmskt skref er til dæmis sá vilji aðila innan stjórnar hans að senda ættingja hryðjuverkamanna í útlegð. Hann gæti komist langt í „Lebensraum“-áformum sínum á þeirri átyllu. Hann á auðvitað miklu auðveldara með þessi stefnumið sín þegar að hann getur skákað í skjóli stríðsástandsins og því heldur hann því markvisst við. Allir sem halda að enginn geti viljað kalla svo ótryggt ástand yfir þjóð sína með markvissum aðgerðum ættu að kynna sér staðreyndir málsins betur. Viðhorfið í ísraelska stórnarráðinu hefur nefnilega lengstum verið það að óvissan og stríðið fyrir hinu endanlega og ótruflaða ríki Gyðinga sé þess virði. Þannig er innri ólgu innan Ísraels líka haldið niðri.
Flutningsleiðin
Stofnun Ísraelsríkis eru hins vegar ein stærstu mistök í síðari tíma sögu. Frekjan og yfirgangurinn gagnvart þeim sem fyrir voru hefur verið afar ógeðfelldur allt frá fyrstu tíð. Viðhorfið hefur alið á tortryggni þjóðanna tveggja sem landið byggja enda hefur ekkert verið gert sem orð er á gerandi til þess að ala á samvinnu og trausti. Palestínumenn vita að Ísraelsmenn vilja að þeir hypji sig. Samvinnustefnan er því næsta óhugsandi, sér í lagi í ljósi síðustu missera.
Sjálfstætt ríki Palestínu kæmi heldur aldrei til greina hjá ráðandi öflum í Ísrael. Ísrael vill ekki gefa tommu eftir af því ríki sem það hefur þegar hertekið og hefur heldur engan áhuga á sjálfstæðri Palestínu sem fjandvini hinum megin við óbifanleg landamæri. Það fyndist þeim jaðra við fífldirfsku. Í apríl síðastliðnum sögðust 46% Ísraelsmanna vera fylgjandi því að allir Palestínumenn yrðu fluttir frá Ísrael. Það hlutfall hefur varla lækkað mikið síðan. Flutningsleiðin er því eitthvað sem margir Ísraelsmenn hugleiða í fullri alvöru.
Vissulega vona allir að Ísraelar tapi sér ekki svo gjörsamlega í vonlausri baráttu sinni fyrir apartheid-ríki sínu að þeir taki upp slíka opinbera þjóðernisflutninga. En stjórnvöld virðast samt sem áður vera að þoka sér hægt og rólega í átt að slíku og í raun virðist stefna þeirra ekki fela í sér neitt annað endanlegt markmið.
Birtist á Pólitík.is 26. júlí 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home