Hert á hnútnum

Þó hvarflar það að manni í fyrstu að forseti Bandaríkjanna vaði nokkurn reyk með margumtalaðri ræðu sinni fyrr í vikunni um málin fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann virðist nefnilega í fljótu bragði ætla sér að leysa hnútinn með því að herða hann. Bush og hans lið hafa hins vegar sínar ástæður fyrir ákvörðuninni. Hún er samt sem áður öfugsnúin og alveg hreint með eindæmum vitlaus ef hún er hugsuð til enda.
Það virðist helst vaka fyrir haukunum í Hvíta húsinu að þau markmið sem boðuð eru í ræðunni séu einhvers konar liður í baráttu þeirra gegn hryðjuverkastarfsemi út um allan heim. Þeir halda enn að aðferðin til að sefa reiði vonlausra og svívirtra Palestínumanna sé að opna enn gáttirnar fyrir blóðhundinum Sharon og hyski hans til að kynþáttastefna hans gagnvart þeim sem fyrir voru nái enn frekar fram að ganga.
Sjálfur Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, áttar sig meira að segja á því að útkoman verður líklega enn meira blóðbað. Að sjálfsögðu - en ekki hvað?! Palestínska þjóðin er úrkula vonar. Ísraelsmenn eru svo gott sem búnir að rústa öllum innviðum palestínsks þjóðfélags, þeir þverbrjóta öll samkomulög og setja fram kröfur sem þeir vita að enginn möguleiki er að staðið verður við, til þess að þeir geti þjösnast lengra og lengra á „lögmætan“ hátt. Núverandi stjórn Bush hvetur Ísraelsmenn dyggilega áfram og hefur í seinni tíð fremur blásið í seglin en hitt. Allt þetta heldur stjórn Bush að virki jákvætt í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og öðrum örvæntingarfullum aðgerðum fólks í nauð. Það er eins og enginn þarna í Vesturálmunni hafi heyrt um sambandið milli orsakar og afleiðingar.
Á sama tíma heldur Bush að hann geti biðlað til palestínsku þjóðarinnar og beðið hana um að kjósa sér leiðtoga hliðhollan þessari þvermóðskufullu hægri stjórn hans. Stjórn sem með samþykki sínu og stuðningi hefur stuðlað óbeint að ólýsanlegum hörmungum og niðurlægingu þjóðarinnar og óbætanlegri eyðileggingu á sjálfsstjórnarsvæðunum. Nú allt í einu eiga Palestínumenn að kaupa orð þessa manns og fara eftir þeim í einu og öllu að viðlögðum hótunum. Hvort á maður að hlægja eða gráta yfir svona einfeldni?
Sem betur fer er engin ástæða til að halda það að þessar aumingjalegu tillögur Bush til sátta nái til eyrna Palestínumanna. Enda hefur Bush hagsmuni Palestínumanna að engu. Honum gæti ekki verið meira sama um þá alla. Þeir einu sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum af allri þessari baráttu hans gegn hryðjuverkum í Palestínu eru auðvitað hryðjuverkamennirnir sjálfir -- þeir einir ná fram áhrifum af því að allar lögmætari aðgerðir eru hindraðar á skipulagðan hátt.
Allir hinir tapa og hnúturinn herðist.
Birtist á Pólitík.is 28. júní 2002.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home