25.9.02

Sigur raunhyggjurmsins

Nú eru nýafstaðnar einhverjar tvísýnustu kosningar í sögu Sambandslýðveldisins Þýskalands. Þrátt fyrir að kanslaraefni beggja stóru fylkinganna bæru sig vel í kjölfar úrslitanna er ljóst að hvorug þeirra vann merkjanlegan sigur að þessu sinni. Raunverulegir sigurvegarar þessara kosninga eru hins vegar klárlega Græningjar.

Ekki bara andófsflokkur
Sigurinn felst auðvitað að miklu leyti í mesta fylgi fylkingarinnar frá upphafi en ekki síður í því að hún stóðst þá miklu prófraun sem hún tók á sig fyrir fjórum árum, þ.e. að sanna sig sem marktækur alvöru stjórnmálaflokkur. Gamli byltingarmaðurinn Joschka Fischer er langvinsælasti stjórnmálamaður landsins og sósíal-demókratar vilja ólmir vinna með þeim áfram.

Græningjar mörkuðu fyrst tímamót í þýskum stjórnmálum fyrir 19 árum þegar þeir urðu fyrstir utan gömlu flokkanna þriggja (sósíal-demókrata, kristilegra demókrata og frjálsra demókrata) til að ná mönnum inn á þing. Upp frá því hafa þeir átt fulltrúa á þingi.

Græningjar eru umhverfisflokkur sprottinn úr grasrótarhreyfingum á sviðum umhverfismála, kvenréttinda og stúdentapólitíkur. Flokkurinn var stofnaður 1980 og hefur verið fyrirmynd umhverfisflokka víðar um álfuna. Segja má að öfgafull stefnumál þeirra og rík áhersla á að hvika ekki frá þeim í samstarfi hafi sett Græningja í sjálfskipaða stjórnarandstöðu alls staðar þar sem þeir buðu fram. Óhefðbundin og að margra mati óraunhæf póst-materíalísk stefnumið hafa einkennt flokkinn, sérstaklega í umhverfismálum þar sem hann hefur viljað ganga mjög langt.

Tvenns konar sjónarmið
Fulltrúum flokksins á þingi hefur hins vegar lærst með lengri þingsetu að nálgast málin frekar út frá hefðbundum leiðum í stað þess að fara eftir hugsjónunum sem geta reynst nokkuð flóknari í framkvæmd en þær virtust samkvæmt einföldum draumsýnum. Þetta hefur valdið nokkrum innanflokksátökum meðal elítunnar annars vegar og hugsjónafólksins hins vegar.

Elítan er að miklu leyti skipuð þeim sem hafa gegnt ábyrgðarstörfum. Sá hópur hefur komist að því af eigin raun að dauðahald í hugsjónirnar getur ekki gengið í verki. Sveigjanleiki er fyrir þeim líka nauðsynlegur til þess að ná samstarfi við aðra því að annars komast Græningjar aldrei til neinna áhrifa.

Hugsjónafólkið heldur hins vegar í gamla viðhorfið að flokkurinn eigi hvergi að hvika í sínum hugsjónum og stefnumálum. Vilji enginn eiga samstarf við þá á þeirra forsendum þá verði að hafa það. Þeir líta á það sem svik að fórna háleitum hugsjónum á altari valdsins og hafa verið ósparir á stóru orðin þegar þeim hafa fundist flokksmenn þeirra í stjórninni vera að ganga í minnsta gegn samþykktum flokksins.

Sem dæmi um skoðanamun fylkinganna tveggja má nefna að á ársþingi flokksins 1998 var samþykkt að þrefalda bensínskatta, lögleiða marijúana, skera niður þýska herinn og stefna að úrsögn úr NATO. Varla þarf að taka það fram að elíta flokksins lét sér ekki detta í huga að koma þessum sjónarmiðum áfram innan þeirrar þýsku stjórnar sem Græningjar gengu til liðs við sama ár.

Munurinn á fylkingunum tveimur innan flokksins hefur lítið minnkað. Joschka Fischer er álitinn svikari meðal stórs hluta flokksmanna og varð m.a. fyrir líkamsárás samflokksmanns á flokksþingi fyrir skömmu síðan.

Ábyrg forysta
Úrslit undangenginna kosninga sýna hins vegar að raunhyggjuarmurinn, með Joschka Fischer í fararbroddi, er í stórsókn. Græningjar eru orðnir alvöru stjórnmálaafl með fulltrúa sem taka ábyrga afstöðu til hlutanna. Hann hefur hrist af sér það slyðruorð að hann láti stjórnast af óábyrgum og óraunhæfum draumsýnum. Þess vegna treysta þýskir kjósendur þeim betur en nokkru sinni fyrr til þess að fara með völd í landinu.

Birtist á Pólitík.is 25. september 2002.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home