20.6.03

Íslenski laxinn í stórhættu

Lítil klausa á forsíðu Morgunblaðsins um daginn varð til þess að rifja upp mál sem hefur eðlilega oft komist í hámæli hér á landi á undanförnum árum. Þar var vitnað í grein breska fræðiritsins New Scientist þar sem rætt var um laxeldi í sjókvíum og þau umhverfisslys sem slíkur búskapur hefur valdið víða um heim. Litla klausan leiddi enn rök að hættu þessarar iðju á vistkerfið, einkum á ómetanlega villta laxastofna. Sagt var frá rannsókn vísindamanna við Oxford-háskóla sem leiddi það í ljós að eldislax er mun meiri ógnun við villta laxastofna en áður hefur verið talið. Nóg óttuðust menn þó fyrir.

Niðurstöður þessara rannsókna varða okkur Íslendinga því miður með beinum hætti. Þannig er nefnilega að austur á landi eru menn byrjaðir að stunda þennan áhættusama búskap. Stjórnvöld hafa veitt tilskilin leyfi með ótrúlega fáum og lítilvægum skilyrðum og hafa litlu skeytt um viðvaranir og bitra reynslu alls staðar frá um stórslys á vistkerfi íslenskra vatna og áa.

Eldislaxinn eins og Keikó í íslensku vistkerfi
Hin bráða hætta felst í mörgu. Hún felst t.a.m. í blöndun eldislax og villts lax. Í löndunum víða í kringum okkur hefur eldislax sloppið úr kvíunum í stórum stíl og valdið óbætanlegu tjóni á villta stofna. Ástæðan er einkum sú að hængar úr eldiskvíum eru hæfari til frjóvgunar á hrognum en villtir hængar. Afkvæmin verða því úrkynjuð sem leiðir til þess að eiginleikar hins villta stofns glatast. Afleiðingar þessarar genablöndunar geta m.a. orðið þær að laxinn hætti að rata upp íslenskar ár enda kann sloppinn eldislax svona jafnvel á íslenskt vatnavistkerfi og Keikó!

Sjúkdómahætta
Önnur hætta felst í því að eldislaxarnir sem hafðir eru í sjókvíum í íslenskum fjörðum eru ekki einu sinni af íslensku kyni heldur norsku! Á Íslandi eru reglurnar þannig að ekki má flytja inn einn einasta smáhvolp án þess að hann fari í gegnum heljarinnar sóttkví vikum saman og alls konar athuganir. Hins vegar virðast íslensk stjórnvöld litlar áhyggjur hafa af norska laxakyninu og þeim sjúkdómum sem það kann að bera með sér ef og þegar að fiskarnir sleppa. Slíkir sjúkdómar gætu þó auðveldlega leitt til algers hruns á villta íslenska laxastofninum.

Íslenskt eftirlit einna slakast
Haldi menn að íslensku sjókvíarnar séu öruggar er það öðru nær. Í nýlegri skýrslu umhverfissamtakanna Worldwide fund for nature er Ísland lægst á blaði yfir aðgerðir til að sporna við áreiti frá fiskeldi. Stjórnvöld létu hvorki fara fram umhverfismat í Mjóafirði og Berufirði né þolpróf á þeim útbúnaði sem til staðar er. Í öðrum löndum gilda strangar reglur um þessa hluti en jafnvel þar hafa stórslys orðið.

Norðmenn halda t.a.m. mun fastar utan um þessa hluti en við en búa samt við þann veruleika í dag að bróðurpartur þess lax sem kemur á land úr þarlendum ám er upphaflega ættaður úr fiskeldiskvíum. Þar hafa tugþúsundir eldislaxa sloppið í einu úr kvíum og það ekki bara einu sinni eða tvisvar.

Ekki þarf nema eitt svoleiðis slys til að hinn víðfrægi villti laxastofn á Íslandi heyri jafnvel sögunni til. Varla þarf að tjá það með orðum þvílíkt áfall það yrði fyrir íslenskt lífríki. Það er hins vegar áhætta sem íslensk stjórnvöld eru meira en tilbúin til að taka.

(Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Veiðifélagsins Kolbeins)

Birtist á Sellunni 20. júní 2003.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home