3.3.03

Kvenfyrirlitning og ótrúleg lítilsvirðing

Sem betur fer virðist hinn einfeldningslegi útúrsnúningur vera á undanhaldi að inni á nektardansstöðum landsins fari aðeins fram listrænn dans og að allar stelpurnar séu þar af því að þær dreymdi um það frá unga aldri að fá að fara úr öllum fötunum og skemmta áhorfendum með því glenna heilugustu staði líkama síns framan í þá, þeim til fróunar.

Engir listviðburðir
Rannsóknir hafa nefnilega margsýnt það sem allir skynir bornir menn hljóta að sjá í hendi sér; að nektarstaðir annars vegar og vændi og mansal hins vegar eru greinar á sama trénu. Slík niðurstaða staðfestist meðal annars í niðurstöðu skýrslu dómsmálaráðuneytisins 2001 um vændi sem rifjuð var upp í vikunni. Hún varð til þess að yfirvöld í Reykjavík rönkuðu við sér og settu af stað ferli sem leiddi til þess að einkadans var bannaður í borginni. Ástæðan var m.a. sú að skilin á milli nektardans og vændis væru lítil sem engin í einkadansinum. Einkadans fer fram eftirlitslaust í lokuðu rými og því er enginn til þess að ganga úr skugga um hvað þar fer fram.

Jafnvel þó svo að tryggt væri að hættan á vændi væri ekki fyrir hendi í einkadansklefanum verður það samt sem áður skýrara en fyrr með einkadansinum að gestirnir eru ekki komnir á staðinn til að njóta listrænnar danssveiflu heldur eru þeir að kaupa sér aðgang að stúlkunum í kynferðislegum tilgangi. Atburðarrásin í framhaldi bannsins í Reykjavík staðfesti það líka. Tekjugrundvellinum var svipt undan flestum „listrænu dansstaðanna“ enda er lifibrauð þeirra engin liststarfsemi heldur hreint og beint daður við hárfína línu á milli vændis og löglegrar iðju.

Mansal er líka á Íslandi!
Sakleysislegri glansmynd nektardansstaðanna er enn betur svipt í burt þegar hlutirnir eru settir í stærra og alþjóðlegra samhengi. Þá kemur í ljós að starfsemi þeirra er beinn hlekkur í alþjóðlegri sölu á konum, einkum frá Rússlandi og Austur-Evrópu. Að afneita þeirri hryllilegu staðreynd er sami barnaskapurinn og að halda enn þá að liststarfsemi fari fram inni á stöðunum eða að allar stelpurnar séu í líffræði í háskólum í útlöndum og séu bara að safna sér fyrir skólagjöldunum.

Ljót viðhorf þingmannsins
Í ljósi alls þessa vekur það því furðu og reiði þegar að Gunnar I. Birgisson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs í Kópavogi, reyndi í vikunni að spyrna við banni á einkadansi í bæ sínum. Enn meiri hneykslan og andstyggð vekur hann þó með viðhorfum sínum til þessa málefnis sem einkennast af kvenfyrirlitningu og ótrúlegri lítilsvirðingu við þetta alvarlega vandamál. Skemmst er að minnast þess þegar hann spurði hvort ekki ætti næst að banna vangadans víst banna ætti einkadans í bænum. Hann myndi þá væntanlega segja sama ógeðfellda brandarann ef dóttir hans, eða einhver önnur manneskja sem honum er annt um, væri með kúnna í einum einkadansklefanna í Kópavogi. Það hlýtur að vera, því að ekki virðist hann á því að um mikið vandamál sé að ræða.

Gunnar hefði gott af því að fara og sjá Lilja 4-ever, nýjustu kvikmynd snillingsins Lukasar Moodyssons (Fucking Åmål og Tillsammans) sem frumsýnd verður á Íslandi á næstu dögum á norrænni kvikmyndahátíð. Þar er dregin upp átakanleg og raunsæ mynd af þeirri hryllilegu veröld sem við fórnarlömbum kynlífsþrælkunar blasir. Kannski rostinn myndi þá lækka í þingmanninum.

Birtist á Sellunni 3. mars 2003.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home