8.1.03

Ljót sjón lítil hjá forsætisráðherra

Davíð Oddsson hefur verið sjálfum sér líkur undanfarna daga. Margir sáu hann missa stjórn á skapi sínu í Kryddsíld Stöðvar tvö á Gamlársdag þar sem hann talaði um fráfarandi borgarstjóra á afar niðrandi hátt í orðasennu við Össur Skarphéðinsson og virtist síðan ekki finna aðra leið út úr ógöngum eigin skapofsa en að reyna að koma dónalegri og hranalegri framkomu sinni yfir á andmælandann. Sama dag fékk hann miðopnuna í Mogganum undir eigin predikanir þar sem atburðarásin í kringum brotthvarf borgarstjóra var afgreidd sem „ljót sjón lítil“.

Tvískinnungur Davíðs
Davíð hafði í því samhengi verið að ræða traust og virðingu stjórnmálamanna. Þar hefði hann ef til vill átt að líta fyrst í eigin barm áður en hann fór að hefja sig yfir aðra og láta stór og óviðeigandi orð falla um andstæðinga sína. Ekki síst verður tvískinnungur forsætisráðherrans áberandi þegar haft er í huga að á sama tíma er hann ábyrgur fyrir máli sem ekki er beint til þess fallið að auka álit eða traust almennings á honum sjálfum. Þar er átt við klúðurslega lokalausn deilunnar í kringum prófkjörssvindl sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi síðastliðið haust.

Hinn strangheiðarlegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson fer þar nefnilega ekki þá leið að leysa lögbrot innan síns eigin flokks með réttlátum hætti eftir lögum og reglum. Þess í stað lætur hann skattgreiðendur borga fyrir ódýr og ólögmæt endalok málsins og tekur þar með bráðabirgðalausn flokks síns fram yfir sannarlega hagsmuni þjóðarinnar.

Klúður og spilling
Væntanlega efast reyndar fáir um að Vilhjálmur Egilsson, sá sem í hlut á, er hæfur í það starf sem hann hefur nú verið ráðinn til þess að sinna. Vilhjálmur hefur doktorspróf í hagfræðum og á víðtæka reynslu að baki í heimi viðskiptanna sem meðlimur í stjórn ýmissa fyrirtækja, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands. Hins vegar tengist spillingin aðferðinni við ráðninguna.

Ástæða ráðningar Vilhjálms er nefnilega sú ein að bjarga ógöngum sjálfstæðismanna vegna eigin lögbrota. Það var í það minnsta engin ástæða til að rýma Ólaf Ísleifsson úr stöðunni fyrir Vilhjálm og það stóð heldur ekki til. Það hafði heldur enginn talað um að hans væri sérstaklega þörf sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Það blasir því við hverjum heilvita manni að ráðgjafastaða Ólafs Ísleifssonar er ekkert annað sárabætur til hans vegna þess að honum var bolað frá sínu starfi. Það var gert til að hægt væri að stinga dúsu upp í sjálfstæðismann sem búinn var að koma flokksforystu sinni í óþægilega stöðu. Þær sárabætur borga síðan skattgreiðendur. Ljóta sjónin litla sem forsætisráðherrann taldi sig hafinn yfir snýst því sannarlega upp á hann sjálfan.

Birtist á Sellunni 8. janúar 2003

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home