Rök fyrir stríði rakin - og hrakin

Prófessorarnir eru þeir John J. Mearsheimer, við háskólann í Chicago, og Stephen M. Walt, við Harvard-háskóla. Úttekt þeirra er frá því í nóvember á síðasta ári og birtist á virtu vefsvæði um alþjóðastjórnmál á vegum Columbia-háskólans. Fjallað er um hvort að stríð sé nauðsynlegt til að hafa hemil á Saddam Hussein. Á málflutningi bandarískra stjórnvalda má skilja að svo sé. Mearsheimer og Walt eru hins vegar á allt öðru máli.
Rök þeirra fyrir því að ekki þurfi til stríðs að koma eru yfirleitt afar sannfærandi. Allir þeir sem láta sig málin varða ættu að gefa úttektinni gaum. Hér er lítið dæmi um málflutning tvímenninganna gegn áróðri bandarískra stjórnvalda:
Stundar Saddam Husseins útþenslustefnu sem ógnar heimsfriði?
Því hefur verið haldið fram að Saddam Hussein hafi stundað útþenslustefnu og herjað á nágranna Íraks í sinni valdatíð. Þar er einkum bent á stríð Íraka og Írana 1980-88 og síðan Persaflóastríðið og því haldið fram að Saddam Hussein sé í báðum tilvikum valdur ófriðarins.
Í tilviki stríðsins við Íran benda prófessorarnir á að þar hafi Hussein verið að bregðast við þeirri raunverulegu og sívaxandi ógn sem stafaði af Ayatollah Khomeini og áætlunum og aðgerðum hans við að breiða út islamska stjórnarhætti sína til landanna í kring. Þessu sjónarmiði voru Bandaríkjamenn hjartanlega sammála á sínum tíma og studdu Íraka af dyggilega í stríðinu gegn nágrönnum sínum.
Í Persaflóastríðinu fer álíka tvennum sögum af atburðarásinni. Hussein leitaði eftir afstöðu Bandaríkjastjórnar til hugsanlegrar innrásar í Írak áður en að henni kom. Bandaríkjamenn sögðust þá ekki myndu hlutast til um í deilu Íraka og Kúveita. Að því svari fengnu taldi Saddam Hussein sér óhætt að ráðast inn í Kúveit. Afstaða Bandaríkjastjórnar reyndist hins vegar önnur í raun.
Það er því afar villandi að draga upp þá mynd að Saddam Hussein hafi í raun ætlað sér í stríð við Bandaríkin og hafi þar með ætlað sér einhvers konar heimsyfirráð með því að reyna að knésetja stórveldið sjálft. Hann taldi sig hafa samþykki þeirra. Hann ætlaði sér einungis að seilast til valda í auðuga smáríkinu Kúveit til að rétta af fjárhag eigin lands. Hann átti hins vegar lítið sökótt við Bandaríkin og hafði þess vegna enga ástæðu til þess að ógna veldi þeirra.
Sagan sýnir því að Saddam Hussein hefur hingað til einungis seilst til valda til að tryggja stöðu Íraks gagnvart nágrönnum sínum. Það hefur hann ekki gert til að ógna Bandaríkjunum eða til að seilast til áhrifa á heimsvísu.
Hér er svo úttekt Mearsheimers og Walts í heild sinni.
Birtist á Sellunni 20. janúar 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home