Af sorglegum úrslitum í Ísrael

Illræmdur og óhæfur forsætisráðherra
Voðaverk Ariels Sharons á Palestínumönnum á undanförnum misserum hafa gert hann að einhverjum illræmdasta leiðtoga lýðræðisríkis á síðari tímum (ef Ísrael á þá að heita lýðræðisríki). Sharon er þó ekki aðeins illræmdur heldur líka afskaplega lélegur stjórnmálamaður. Að minnsta kosti hlýtur sú niðurstaða að blasa við sé gengið út frá þeim kröfum til stjórnmálamanna að þeir eigi að vinna að almannaheill þegna sinna.
Hann er nefnilega langt kominn með að rústa eigin ríki. Sjálfur átti Sharon upptökin að því að egna til stríðsástands í landi sínu þannig að borgarar hans hugsa nú um það eitt að komast í gegnum hvern dag fyrir sig óhultir. Hann sýnir friðarferli og sáttatillögum engan áhuga þrátt fyrir að vinátta og gagnkvæmt traust sé vitanlega það eina sem geti þokað málum í rétta átt. Þessu til viðbótar hefur efnahagsástand versnað mikið í tíð Sharons auk þess sem samúð alþjóðasamfélagsins með málstað Ísraels er að miklu leyti á bak og burt.
Augum beint frá innri vanda
Ástæðan fyrir því að ísraelskir kjósendur vilja þó fara þessa stríðshrjáðu leið er gamalkunn. Hana hafa þeir farið margoft áður og segja má að hún hafi að mörgu leyti komið sér vel fyrir ísraelska ráðamenn, allt frá stofnun Ísraelsríkis 1949. Það að hafa einn sameiginlegan óvin hefur þjappað hinni afar sundurlausu Ísraelsþjóð saman og beint augunum frá þeim brýna vanda sem stafar að margbrotnu samfélaginu og djúpstæðum innri klofningi.
Þá er auðvitað ekki minnst á stærsta vandamálið sem er hvernig eigi í raun að útfæra það að byggja upp lýðræðisríki sem grundvallist á trú. Sú hugmynd er auðvitað afskaplega þverstæðukennd í öllum grundvallaratriðum. Tilurð ríkisins er því rasísk í eðli sínu, Gyðingar eru öðrum rétthærri. Út úr slíku getur aldrei komið eðlilegt lýðræðislegt fyrirkomulag.
Draumalausnin um Gyðingaríkið
Að því er heldur ekki stefnt í Ísrael. Þess vegna eiga sáttahugmyndir hins hófsama (en þó langt frá því saklausa) Amrams Mitzna alls ekki upp á pallborðið hjá þorra Ísraela. Hugur fylgir nefnilega ekki máli í Ísrael þegar sagt er að stefnt sé að sáttum í Ísrael og hefur sjaldan gert. Draumalausn Gyðingaríkisins er nefnilega ekki land þar sem Ísraelar og Palestínumenn búa saman í sátt og samlyndi. Draumalausnin er ríki þar sem bara Gyðingar búa og allir hinir verða flæmdir í burtu. Þessi draumalausn er sú sem Sharon og kónar hans hafa unnið markvisst eftir við góðar undirtektir.
Rödd friðarins er hjáróma í Ísrael. Þó hljómar hún nú þokkalega úr einni átt – frá Amram Mitzna, leiðtoga Verkamannaflokksins. Hann hefur valdið pólitískri pattstöðu í Ísrael með því að neita að sitja í skjóli illvirkja Sharons í þjóðstjórn. Viðspyrna Mitzna er virðingarverð og nú er að vona að hún haldi út. Hún er þó ekki líkleg til að verða til mikils þegar til lengri tíma er litið enda virðist stefnan vera ansi einörð í þá átt að viðhalda, og jafnvel auka, geðshræringu og stríðsólgu í landinu helga.
Birtist á Sellunni 30. janúar 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home