Hvað gerir Samfylkingin?

Blendnar tilfinningar
Á öfugsnúinn hátt er kosningasigur jafnaðarmanna þannig að snúast upp í hálfgert svekkelsi. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi unnið verulega á og Sjálfstæðisflokkurinn tapað umtalsverðu fylgi þá stendur það eftir að hægri stjórnin heldur velli og Ingibjörg Sólrún náði ekki inn.
Staðan er óráðin hjá Samfylkingunni. Flokkurinn stólaði á það í kosningabaráttu sinni að komast í stjórn og tefla þar Ingibjörgu Sólrúnu fram. Nú er hlutverk Ingibjargar Sólrúnar óljóst; eftir kosningarnar er hún einungis varaþingmaður og borgarfulltrúi. Vissulega gæti flokkurinn fundið henni hlutverk, eins og hann gerði í nýliðinni kosningabaráttu, en slík hlutverk blasa nú ekki beinlínis við í núverandi stöðu að öllu óbreyttu.
Ekki hvort heldur hvenær
Þess vegna er fólk strax farið að leggja á ráðin um það hvernig hliðra megi til þannig að staða Ingibjargar Sólrúnar sé áfram tryggð í framlínunni. Flestir horfa þar til formannssætis flokksins. Þrátt fyrir að Össur Skarphéðinsson hafi að mörgu leyti unnið frábært uppbyggingarstarf sem formaður hins nýja flokks líta flestir svo á að hann sé aðeins í tímabundnu leiðtogahlutverki og eigi að stíga til hliðar um leið og krónprinsessan er tilbúin til þess að taka við krúnunni. Gott ef hann er ekki meira að segja hjartanlega sammála því sjálfur.
Hins vegar er þetta allt saman spurning um tímasetningu og pólitísk klókindi. Það er erfitt að sjá hvaða áhrif Ingibjörg Sólrún á að hafa á íslensk stjórnmál sem leiðtogi stjórnarandstöðuflokks án þess að sitja á þingi. Það er því að öllum líkindum betur til fundið að Ingibjörg Sólrún bíði síns vitjunartíma og bjóði sig fram til formanns á landsfundi eftir tvö ár.
Varaformennska fyrst um sinn hyggileg
Þangað til gæti verið heppilegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að þiggja boð Margrétar Frímannsdóttur um að taka við sem varaformaður flokksins. Sú staða yrði langt í frá fráleit. Ekki væri ónýtt fyrir sveitastjórnarfólk Samfylkingarinnar að hafa borgarfulltrúann Ingibjörgu Sólrúnu sem sinn tengilið í forystu flokksins. Einnig gæfust þá nokkur misseri til að undirbúa jarðveginn fyrir formannsskiptin.
En svo gerist það kannski bara að Framsóknarmenn koma til sjálfs sín, öðlast eigið frumkvæði og hætta að daðra við lúsera nýliðinna kosninga og einhenda sér í það að taka þátt í myndun almennilegrar félagshyggjustjórnar. Og þá verða allar þessar bollaleggingar um nýja sóknaruppstillingu Samfylkingarinnar óþarfar. Í bili að minnsta kosti.
Birtist á Sellunni 15. maí 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home