Tröllalobbíismi, rónar og rokksköddun

Heimildarmyndirnar á sunnudögum
En af því sem Ríkissjónvarpið hefur upp á að bjóða hafa íslensku heimildarmyndirnar sem sýndar hafa verið hver eftir aðra undanfarin sunnudagskvöld vakið einna mesta kátínu. Segja má að viðfangsefni þessara mynda hafi spannað flestallar víddir mannlegrar flóru; undirmálsfólk á Hlemmi, tröllalobbíistar í Brussel, Tælendingar norður í landi og rokksködduð hljómsveit. Þrátt fyrir þessi ólíku efnistök hafa þær allar átt það sameiginlegt að vera einkar athyglisverðar og skemmtilegar.
Spennandi efniviður ekki nóg
Þessar myndir sýna fram á þá margreyndu staðreynd að það er ekki efniviðurinn sjálfur sem sker úr um gæðin heldur meðferð hans og úrvinnsla. Fjölmörg dæmi eru um þetta. Myndin um Megas, sem sýnd var síðasta vetur, var til dæmis dæmi um mjög „girnilegt“ viðfangsefni en arfaslaka úrvinnslu. Útkoman var ómarkviss og langdreginn þáttur sem vitanlega olli miklum vonbrigðum. Það sama má raunar segja um þátt um einelti sem sýndur var sl. fimmtudagskvöld. Það verðuga málefni fór þar allt of mikið fyrir ofan garð og neðan sökum slæmrar þáttagerðar.
Dæmin um hið gagnstæða eru líka fjölmörg, þ.e. þegar meistaralega er unnið úr efnivið sem fyrirfram virðist óspennandi. Þar hefur breska ríkissjónvarpið (BBC) um árabil verið í algjörum sérflokki. Fólki þar á bæ tekst yfirleitt setja jafnvel ólíklegustu umfjöllunarefni fram á athyglisverðan máta þannig að maður lætur lokkast að skjánum. Undirritaður man til dæmis eftir að hafa fylgst spenntur með heilu þáttaröðunum frá BBC um hormón, mannsandlitið, stærðfræði og fleiri viðfangefni sem myndu að öllu jöfnu ekki beint vekja áhuga hans, en verða spennandi vegna framsetningarinnar.
Mikill fengur
Sunnudagsmyndirnar sverja sig í ætt við BBC-efnið allt saman að því leyti að þær eru bæði fróðlegar og skemmtilegar og að baki þeim liggur mikil yfirlega og vönduð vinnubrögð. Íslendingum er mikill fengur í þessari metnaðarfullu heimildarmyndagerð. Hún er upplýsandi um ýmsar hliðar og fleti samfélagsins og hjálpar okkur að öðlast skilning og samúð með hlutum sem við erum e.t.v. fráhverf fyrirfram. Hún er þess vegna liður í því að mennta okkur og - ekki síður - skemmta.
Birtist á Sellunni 1. apríl 2003.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home