Ársáskrift að síðasta blaðinu

Rammpólitísk menning
Það eru reyndar sorgleg tíðindi að þetta rótgróna tímarit sé nú að leggja upp laupana. Allt frá árinu 1940 hefur það gegnt veigamiklu hlutverki í bókmennta- og menningarumræðu þjóðarinnar. Í upphafi var inntak þess raunar ekki síður rammpólitískt en menningarlegt, kannski má tala rammpólitíska menningu. Vinstri sinnaðir menningarpostular komu þar sínu efni að, birtu eigin skáldskap og þýddu annars staðar frá, skrifuðu mælskar hugvekjur um alræði öreiganna og skömmuðust út í auðvaldið. Halldór Laxness var meðal þeirra sem mikið lét til sín taka enda ófeiminn við að blanda sér af fullum krafti í þjóðfélagsumræðuna og siða menn til, jafnt háa sem lága.
Kalda stríðs-ofsann lægir
Smám saman lægði kalda stríðs-ofsann og síðustu áratugi tuttugustu aldar varð æ erfiðara að greina pólitíska strauma í ritstjórnarstefnu tímaritsins. Blaðið varð helst þekkt sem mikilvægur vettvangur skáldskapar og vandaðra skrifa um listir og menningu. Mörgum brá því í brún þegar það var ákveðið fyrir tveimur árum síðan að umbylta formi og inntaki blaðsins. Breytingin var raunar svo mikil að margir litu svo á að dagar Tímarits Máls og menningar væru í raun taldir.
Skammlíft nýtt TMM
Upp merki þess tók þynnra tímarit í stærra broti. Gömlu TMM-skammstöfuninni var haldið en nú stóð hún fyrir Tímarit um menningu og mannlíf. Eins og nafnið bendir til átti nýja blaðið að sigla einhvers staðar mitt á milli gamla TMM og tímarita í anda Mannlífs og Nýs lífs. Tilraunin heppnaðist ekki nógu vel, blaðið varð lengstum hvorki fugl né fiskur og virtist hvorki höfða nógu vel til almennings né menningarvitanna sem sáu á eftir gamla TMM.
Það verður nú samt að segjast að oft hefur nýja TMM skartað mjög áhugaverðu og innihaldsríku efni sem alveg eins hefði átt heima í forvera sínum. Hins vegar vantaði alltaf eitthvað upp á. Verðið hefur svo ábyggilega fælt ófáa áhugasama frá, 1290 krónur er bara of hátt verð fyrir ekki meira rit sama hvað hver talar um kostnað.
Og nú eru dagar Tímarits Máls og menningar sem sagt endanlega taldir. Það er skarð fyrir skildi. Nú er bara að vona að einhverjir framtakssamir taki sig til og tefli fram á auðu reitina sem TMM skilur eftir sig.
Birtist á Sellunni 11. júní 2003
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home