Niðurdrepandi 1. maí hugvekja

Úlfur í sauðagæru
Allt lofaði þetta afar góðu. Göngutúrinn niður Laugaveginn og Bankastrætið virtist manni því ekkert annað en sjálfsögð fórn fyrir þeirri dýrð sem hlyti að blasa við manni við göngulok niðri á Lækjartorgi. Síðan hófust skemmtiatriðin. Á stokk steig fólk sem talaði hvössum rómi um óskiljanlega hluti.
Fljótlega fór að renna upp fyrir manni ljós og Verkalýðsdagurinn frá síðasta ári rifjaðist hægt og rólega upp. 1. maí var ekki eins og 17. júní, skrúðgangan hét kröfuganga, skemmtiatriðin hétu ræðuhöld og blöðrur, ís og kandíflos voru hvergi til sölu. Þetta var hundleiðinlegur dagur sem ginnti lítil börn þegar hann þóttist vera skemmtilegur.
Stemning eins og á þriðjudeildarleik
Síðan á þessum árum hefur mér í raun hundleiðst að taka þátt í hvers konar mótmælum. Endrum og eins hefur einhver múgsefjun orðið til þess að maður hefur látið til leiðast í einhvers konar andófi gegn óréttlátum hlutum. Hins vegar felast þessi mótmæli of oft í þreytandi mótmælastöðum fyrir utan einhver ráðuneyti eða tíðindalausum en löngum göngum í slagviðri og vosbúð.
Málstaðurinn finnst manni svo oftar en ekki frekar ómerkilegur. Í stað þess að maður sé á harðahlaupum undan lögreglunni í skærum gegn alræðisstjórn í blóðheitri baráttu fyrir lýðræði snúast þessi íslensku mótmæli yfirleitt um lausn kennaraverkfalls, hærri námslán eða eitthvað því um líkt. Svo mæta yfirleitt ekki nema fáeinir tugir þannig að baráttuandinn og stemningin verða svona svipuð og á þriðjudeildarleik í fótbolta þar sem enginn nennir að mæta til að horfa á nema í mesta lagi kærustur og fáein skyldmenni leikmannanna.
Hljóðlát innanhússmótmæli
Ég er því frekar lélegur baráttuhundur eftir allt saman. Skrifa bara í mesta lagi greinar inn á svona vefi þegar ég er pirraður út í eitthvað en guggna þegar ég þarf að bíta á jaxlinn í íslenskum hliðarvindi allt of illa klæddur af því að ég læt dagatalið blekkja mig og held að maí þýði sjálfkrafa sumar.
Ég mótmælti því bara heima hjá mér í gær og í hljóði. En ég tek samt ofan hatt minn fyrir öllum þeim sem höfðu meiri manndóm en ég, lögðu á sig að mæta í göngu og berjast fyrir brýnum málum, þeim og okkur þessum aulum sem heima sátum til hagsbóta.
Birtist á Sellunni 2. maí 2004.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home