20.5.04

Engst um í rökþroti

Það hefur verið grátbroslegt að fylgjast með þeim félögum Mogga og Sjálfstæðisflokknum undanfarna daga. Báðir engjast þeir um í rökþroti sínu vegna fjölmiðlafrumvarpsins og grípa til ólíklegustu örþrifaráða til varnar sínum málstað.

Hræsni Moggans
Um daginn greip Mogginn til dæmis til þess aumkunnarverða ráðs að hljóðrita samtal tveggja fjörkálfa af útvarpstöðinni FM 957 sem í hálfkæringi höfðu grínast með það að það þyrfti eiginlega að fara að ganga frá forsætisráðherranum.

Enginn tók það alvarlega, frekar en nokkur hefur nokkru sinni gert yfir einu einasta orði sem dagskrárgerðarmenn þeirrar stöðvar láta út úr sér. Mogginn tók það ekki heldur alvarlega en þóttist hins vegar vera yfir sig hneykslaður. Allir sáu í gegnum hina uppgerðu hneykslan Moggans enda væri ekki annað í Mogganum alla daga en hljóðritanir á hneykslanlegum samtölum sem fram fara á hinum frjálsu útvarpsstöðvum ef Mogginn væri samkvæmur sjálfum sér. En það er hann auðvitað alls ekki.

Seinheppni Björn og ómerki tölvupósturinn
Næstar skal nefna til sögunnar lítilfjörlegar tilraunir Björns Bjarnasonar til þess að drepa fjölmiðlafrumvarpinu á dreif. Hann fann engin ráð til þess að réttlæta frumvarp stjórnar sinnar önnur en þau að draga upp tveggja ára gamlan tölvupóst frá Þresti Emilssyni blaðamanni. Í honum var að finna gamalkunnar dylgjur og óhróður um tengsl Jóns Ólafssonar og R-listans.

Björn hreykti sér hátt en varð síðan fyrir því óláni á þriðjudaginn var að bréfritarinn sjálfur steig fram og sagði ávirðingar sínar í bréfinu ekki hafa verið á rökum reistar, baðst innilega afsökunar og harmaði það í leiðinni að dómsmálaráðherra hefði dregið efni bréfsins inn í umræðuna. Og hvað gerir Björn þá? Biðst afsökunar líka? Nei, ekki Björn. Björn á það sameiginlegt með félaga sínum í forsætisráðuneytinu að álíta það veikleikamerki að iðrast. Betra að hjakkast á sínum eigin mistökum.

Viðbrögð Björns voru fyrirsjáanleg: Í DV í gær bregst hann reiður við, sjálfsagt af skömm, og reynir að vísa ábyrgðinni á alla aðra en sjálfan sig. Ýjar að því að Þröstur hljóti að hafa dregið allt til baka vegna þrýstings frá sínum vinnustað, Fréttablaðinu. Fram að því hafði Björn tekið fram að hann hefði ekki nokkra ástæðu til að efast um orð Þrastar Emilssonar „sem væri nú vanur að hafa orð eftir fólki“, eins og Björn orðaði það sjálfur. En á einni nóttu var Þröstur Emilsson orðinn tortryggilegur pappír í augum Björns Bjarnasonar. Af hverju skyldi það nú vera? Sei sei, Björn.

Mogginn fer á kostum
Og hvað gerir Mogginn? Hann fer á kostum í leiðara í gærmorgun þar sem hann gerir tilraun til þess að koma þessu vandræðamáli Björns síns yfir á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur! Hún hafi jú eggjað hann til þess að lesa bréfið. Hvort á maður að hlæja eða gráta? Líklega hlæja. Björn var með bréfið á sér og sagðist þess reiðubúinn að lesa það. Þáttur Ingibjargar Sólrúnar var sá að segja: „Lestu það þá“, vitandi það að ekkert í bréfinu stæðist og höggið myndi lenda á ráðherranum sjálfum. Og ráðherrann las og framhaldið er öllum ljóst. Svo þegar allt er komið í kaldakol hjá ráðherranum kemur Mogginn hans honum til hjálpar með sínum rökrétta málflutningi.

Hið reglubundna æðiskast
Já, og áfram mætti halda. Nefna til dæmis til sögunnar æðiskast Davíðs Oddssonar um daginn þegar hann jós fram órökstuddum dylgjum um að forsetinn hefði jafnan boðið til veislu þegar að Stöð 2 var að taka lán hjá erlendum aðilum og að hann léti stjórnast af því í sínum störfum að dóttir hans ynni hjá fyrirtækinu sem forsætisráðherrann er í herför gegn. Jú, kannski Davíð sé þá eins óhæfur til að tjá sig um málefni dómsmálaráðuneytisins vegna Þorsteins sonar síns, aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar. Líklega bara.

...en hið vitlausa sigrar samt að lokum!
Það hefur sem sagt oft verið snúnara að vera í stjórnarandstöðu. Menn sem hamast við að grafa sína eigin gröf eru nefnilega ekkert sérstaklega skæðir óvinr. En hinum rökþrotnu virðist samt ætla að takast að þvinga sína þvælu í gegnum þingið með því að snúa upp á nokkrar hendur, í trássi við vilja þjóðarinnar og ráðleggingar flestallra málsmetandi manna. Þannig er lýðræðið látið virka á þessum síðustu tímum.

Birtist á Sellunni 20. maí 2004.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home