12.11.03

Tony alveg búinn að missa það

Jafnaðarmenn um allar trissur fögnuðu innilega þegar að Verkamannaflokkurinn með Tony Blair í fararbroddi sigraði í bresku þingkosningunum 1997. Átján ára valdatíma Íhaldsflokksins var lokið og við tók vongott og kraftmikið fólk sem ætlaði að fara þriðju leiðina. Stjórn Verkamannaflokksins virtist falla mönnum vel í geð, alla vega ef marka má næstu kosningar sem fram fóru fjórum árum síðar. Verkamannaflokkurinn vann þá enn stærri sigur en Íhaldsflokkurinn, gamla stórveldið í breskum stjórnmálum, beið afhroð og nánast þurrkaðist út.

Allt í lukkunnar standi
Ekkert virtist bíta á Tony og Cool Britannicu-fólkið í Verkamannaflokknum. Jafnaðarmenn um alla álfu, meðal annars hér á Íslandi, litu upp til kollega sinna á Bretlandi. Ungir jafnaðarmenn héldu meira að segja héðan til Bretlands og gerðust sjálfboðaliðar í kosningabaráttu Verkamannaflokksins og reyndu í leiðinni að læra sigurformúluna til að henni mætti beita heima á Íslandi.

Hin ófyrirgefanlega ákvörðun
Eftir því sem misserin liðu fór hins vegar að tínast úr hópi stuðningsmanna bresku ráðamannanna. Ýmsar ákvarðanir sem ekki hafa beint þótt í anda félagshyggju eða jafnaðarmennsku hafa orðið til þess. Engin ákvörðun hefur þó reynst Blair-stjórninni eins afdrifarík og sú að taka einarða afstöðu með haukunum í Washington og taka þátt af öllum mætti í innrásinni á Írak.

Vinsældir Blairs hröpuðu og fullyrða má með nokkurri vissu að jafnaðarfólk, sem áður horfði með velþóknun til margs sem Blair-stjórnin stóð fyrir, hafi endanlega snúið við honum baki. Ekkert réttlætir það að þetta fólk ætti eftir að veita honum náð í framtíðinni enda er allur tilbúnaðurinn í kringum Íraksstríðið ófyrirgefanlegur í augum flestra vinstri manna í heiminum.

Hægri sinnuð paranojupólitík
Ekki bendir nú reyndar margt til þess að Blair sitji sveittur við að reyna að vinna hylli vinstri fólks á ný þó honum veitti svo sannarlega ekki af því. Þvert á móti virðist hann verða hrifnari af hægri sinnuðu paranojupólitíkinni hjá vinum hans í Hvíta húsinu með hverjum deginum sem líður.

Nýjasta útspilið hans er persónuskilríki sem hann ætlar að skylda alla Breta til að bera á sér öllum stundum. Þetta á að gera allt miklu betra og öruggara og tryggja það að hægt sé að hafa eftirlit með öllum. Lausnin sem sagt að herða eftirlit með fólki, tortryggja alla. Skuggalega líkt aðferðafræði vopnabróðurins í vestri.

Valið milli vonds og verra
Þó er ekki fullreynt með að hægri beyjur Tonys muni ríða honum að fullu. Andstæðingar hans í öðrum flokkum hindra það að mestu með jafnslakri og oft verri frammistöðu. Kannski einhverjir kjósi því Blair og hans menn aftur eftir tvö ár, með óbragð í munni þó, einfaldlega af því að aðrir kostir gætu verið enn þá ókræsilegri.

Breskir kjósendur verða því varla öfundaðir þegar þeir standa frammi fyrir því að velja á milli vonds og verra á kjörseðlinum í kosningunum 2005. Kannski þeir ættu bara að skila auðu.

Birtist á Sellunni 12. nóvember 2003.

5.11.03

Eru Evrópubúar Gyðingahatarar?

Þegar ég var lítill fannst mér það algjörlega óskiljanlegt að Asíuríkið Ísrael fengi alltaf að vera með í öllum Evrópukeppnum í fótbolta og meira að segja í Eurovision líka. Þá gerði ég mér ekki grein fyrir því að stjórnmál gætu haft sitt að segja þegar farið væri á svig við hefðbundna álfuskiptingu í jafn mikilvægum og háalvarlegum málaflokkum og fótbolta og söngvakeppni. Enn þá minna vissi ég um valdatöfl í miðausturlöndum eða forsögu Ísraels og hin miklu tengsl þess við vestræn ríki Evrópu.

Fjárans Evrópubúar að hugsa sjálfstætt!
Tilefni þessarar upprifjunar eru nýkomnar niðurstöður Eurobarometer, könnunar sem reglulega er gerð meðal þegna ríkja ESB til að kanna afstöðu þeirra til ýmissa mála. Þar kemur það meðal annars fram að Evrópubúar eru greinilega hin mestu ólíkindatól sem svífast einskis í því að fara á skjön við boðorð Bandaríkjanna og leppríkja þess um það hverjir eru góðir í heiminum og hverjir vondir. Bandaríkin sem voru búin að margsegja fólkinu það að Írakar og Íranir og Norður-Kóreumenn væru vondir. Og svo Sýrlendingar líka. En hvað gera Evrópubúar? Segja að stjórnvöld í Ísrael séu mesta ógnun við heimsfriðinn. Þvílík ósvífni! Ekkert annað en Gyðingahatur því að ekki hafa Ísraelar gert flugu mein og ógna engum.

Svívirðileg túlkun fyrirmenna ESB
Nei, svona í alvöru talað. Hvernig í ósköpunum stendur á því að forystumönnum ESB dettur í hug að lýsa yfir hneykslan á því að þegnar þeirra leggi þetta skiljanlega mat á ógn sem stafar af ríkjum heimsins? Hvaða rétt hafa popúlistinn Silvio Berlusconi forystumaður Ráðherraráðs ESB og Romano Prodi forseti framkvæmdastjórnar ESB til þess að túlka mat 59% ESB-þegna á hættunni sem stafar af Ísraelsríki sem Gyðingahatur? Ekki nokkurn einasta. Þessi hroki og þessi skrumskæling fyrirmennanna er hrein og bein svívirðing gagnvart fólki sem byggir álit sitt ekki á kynþáttahatri heldur á réttmætu mati á því hvar stjórnvöld valda mestum voða og bera um leið litla virðingu fyrir tilmælum alþjóðasamfélagsins.

Ríki, líttu þér nær!
Það er ekki Gyðingahatur að óttast ríki sem byggir tilveru sína beinlínis á ógn og yfirgangi við þá sem fyrir voru, sviptir þá öllum réttindum og fangelsar og drepur eftir hentugleik. Það er heldur ekki Gyðingahatur að óttast voldugt kjarnorkuríki sem hundsar allar ávirðingar alþjóðasamfélagsins og lætur sig engu skipta álit annarra. Það er einfaldlega álit réttsýns fólks sem býr í álfu sem hefur sýnt einstakt langlundargeð allt of lengi gagnvart ríki sem frá upphafi hefur vaðið yfir aðra með offorsi og illsku. Ríki sem stundar misrétti borgaranna (líka kallað rasismi) og hefur sannarlega sýnt í verki sams konar hatur og fyrirlitningu og það sakar nú 59% íbúa ESB-ríkja um á ósvífinn og rætinn hátt.

Birtist á Sellunni 5. nóvember 2003.