„Aftur til þín, Þröstur...“

Og ekki nóg með það: áskilið er að greitt sé ákveðið þátttökugjald með hverri bók sem tekin er fyrir hjá nefndinni sem getur gert það að verkum að félitlar útgáfur hafa einfaldlega ekki efni á því að senda inn sín framlög. Tímasetning tilnefninganna, við upphaf jólabókaflóðsins, er líka miðuð við þarfir stóru útgáfanna og virðist miða að litlu öðru en að auka sölu í gósentíðinni.
Dómnefndin þarf að stunda mikinn hraðlestur til þess að ná að klára allar þær bækur sem fyrir liggja á þeim örskamma tíma sem líður frá því að bók kemur út og þar til stuttu seinna þarf að tilkynna um tilnefningarnar. Tilnefningarnar geta því ekki talist afrakstur mikillar yfirlegu eða yfirvegaðra vinnubragða. En gott og vel, segir Þröstur, leyfum útgefendum bara að eiga sín útgefendaverðlaun.
Hins vegar veltir Þröstur því upp hvort ekki sé kominn tími á önnur íslensk bókmenntaverðlaun til mótvægis við hin harðsoðnu, markaðsmiðuðu og langt í frá hlutlausu verðlaun sem fyrir eru. Svipaðar vangaveltur mátti raunar einnig heyra hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamanni og bókarýni í síðasta Silfri Egils.
Þröstur stingur upp á eins konar íslenskri akademíu, hópi sérfróðs fólks á sviði bókmennta, sem gæti til að mynda birt lengri lista yfir tilnefndar bækur til verðlaunanna og svo styttri einhvern tíma í kjölfarið. Þessu kerfi myndi þar með svipa til fyrirkomulags Booker-verðlaunanna bresku. Verðlaunin sjálf mætti síðan veita einhvern tíma á sumarmánuðum og yrði það hugsanlega til þess að dreifa umræðu um íslenskar bókmenntir jafnara yfir árið.
Í framhaldi af þessu segir Þröstur að vilji sé allt sem þurfi og ákallar einhver stórfyrirtæki til að styðja verkefnið.
Það er spurning hvort ekki sé rétt að taka Þröst á orðinu og spyrja hvort hann, með sinn fjölmiðil að baki sér, geti ekki einmitt verið rétti maðurinn til þess að koma verkefninu af stað. Hvernig væri að hann ásamt sínu blaði hvetti til þess að þeir fjölmiðlar, sem geta með sanni haldið því fram að þeir sinni menningarmálum af einhverjum mætti, tækju sig saman og stæðu fyrir slíkum verðlaunum - hugsanlega þá með stuðningi einhvers stórfyrirtækis, ef hann er þá nauðsynlegur yfir höfuð.
Þannig mætti hugsa sér að Morgunblaðið, Tímarit Máls og menningar, Rás eitt tilnefndu sína fulltrúa til samstarfsins (aðrir fjölmiðlar munu eiga erfiðara með að halda því fram að þeir sinni menningarmálum af einhverju viti). Framgangi tilnefninga og verðlauna yrði væntanlega fylgt eftir í þessum fjölmiðlum sem allir hafa innanborðs fólk sem treystandi er til þess að standa faglega og yfirvegað að mati á gæðum íslenskra bókmennta hvers árs fyrir sig. Minni hætta væri á hagsmunatengslum þar sem allir, bæði útgefendur og rithöfundar, kæmu jafnir til leiks og markaðsblærinn væri á bak og burt.
Verðlaun fyrir listir eru eftir sem áður umdeilt fyrirbæri og auðvitað myndi þetta hugsanlega fyrirkomulag í raun ekkert komast nær einhverjum stóra sannleik um það hvaða bækur eru góðar og hverjar vondar. En yfirbragðið yrði ef til vill faglegra, yfirvegaðra og hlutlausara en það sem nú gildir í tengslum við Íslensku bókmennta(útgefenda)verðlaunin.
Þannig að ég segi:
„Aftur til þín, Þröstur. Vilji er allt sem þarf!“
Birtist á Sellunni 22. desember 2005.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home