Samband ljóss og manns

Samsýning Ólafs hefur vakið mikla athygli hér á Skáni, fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hana auk þess sem hún hefur verið vel auglýst á svæðinu. Engan þarf svo sem að undra enda þykir þessum söfnum tveimur mikill fengur af því að hafa fengið það tækifæri að fanga krafta hins mjög svo eftirsótta listamanns. Sérstaklega hrósar forstöðufólk safnanna happi yfir því að hafa nælt í Ólaf með svo skömmum fyrirvara en það er tiltölulega stutt síðan að söfnin áttuðu sig á því að Ólafur var ofarlega á óskalista þeirra beggja og því ákváðu þau að taka höndum saman í að sýna verk Ólafs á samtengdri sýningu í Lundi og Malmö.
Ólafur hefur sagt frá því í viðtölum við skánska fjölmiðla að margt hafi auðveldað honum þá ákvörðun að ganga til samstarfs við listasöfnin tvö. Fyrir utan að þekkja forstöðufólk safnanna tveggja frá fyrri tíð af góðu einu þótti honum einnig hentugt að setja upp sýningu á báðum stöðum þar sem söfnin hafa á vissan hátt keimlíkt yfirbragð enda er arkitekt þeirra beggja sá sami. Á sama tíma mynda þau hins vegar ákveðnar andstæður bæði í stærð og lögun. Í listasafninu í Malmö eru stór rými þar sem að umfangsmikil verk njóta sín vel á meðan að listasafninu í Lundi er skipt upp í mörg minni rými og útskot sem henta vel fyrirferðarminni verkum.
Stjórn listasafnsins í Malmö hafði legið undir ámæli ýmissa í sumar fyrir að taka allt safnið undir einn einstakan hljóðskúlptúr skosku listakonunnar Susan Philipszs og því hefur sjálfsagt hinum sömu gagnrýnendum ekki litist betur á blikuna þegar að sami leikurinn var leikinn aftur og allt safnið enn á ný tekið undir verk sem ekki er mjög áþreifanlegt og virðist, við fyrstu sýn, ekki vera annað en ljós í lofti og á veggjum. Fulltrúar listasafnsins hafa snúist þessu til varnar og segja að eins megi færa rök fyrir því að þvert á móti hafi rými safnsins aldrei verið eins gjörnýtt og á yfirstandandi sýningu þar sem hin mismunandi hvíta birta og sú gula fylli upp í hvert skúmaskot sýningarsala safnsins. Nýtingin sé því algjör! Reyndar stakk Ólafur sjálfur upp á því í gríni í viðtali við skánska fjölmiðla að næsta sýning listasafnsins í Malmö yrði einn stór lyktarskúlptúr. Þar með væri ákveðinni heilagri þrenningu skynfæranna náð meðal sýningargesta.
Þegar gengið er inn á listasafnið í Malmö blasir stærra verk Ólafs strax við. Verkinu má lýsa sem stóru rými: hvítum veggjum og lofti og hvítlökkuðum gólffjölum. Fyrir miðju lofti eru svo tveir jafnstórir flekar þar sem annar varpar dagsljósi inn í rýmið í gegnum hvítar plastplötur sem hleypa birtunni í gegn. Hinn flekinn er klæddur sams konar plastplötum en undir honum er birta hundruða flúorljósaröra sem líður smám saman frá einu blæbrigði til annars. Sams konar andstæður náttúrulegs og tilbúins ljóss eru svo á hliðarveggjum salarins. Það er svo sýningargesta sjálfra að reyna að komast að því hvor birtan er tilbúin og hvor er náttúruleg. Sýningargesturinn er virkur þátttakandi í verkinu, eins og svo oft áður hjá Ólafi Elíassyni, og eftir sem áður á það sérstaklega vel við um verk Ólafs þegar sagt er um listaverk að þau verði ekki til fyrr en til kemur skynjun áhorfandans.
Til að tæma rýmið algjörlega af öllu öðru en ljósinu hvíta þá hefur birtan verið jöfnuð út og stillt þannig að nánast engir skuggar myndast af sýningargestum. Þetta leiðir hugann að sambandi ljóssins og mannsins. Í því samhengi er það nefnt í tengslum við sýninguna að skuggaleysi rýmisins myndar skýra andstæðu við samband norrænna manna við birtuna sem 70% ársins þurfi að draga á eftir sér lengri skugga en sem samsvarar hæð þeirra sjálfra. Af þeim sökum er þungu fargi af gestum létt þegar þeir nú á haustdögum ganga inn í skuggaleysið á sýningunni í Malmö.
Hvíti hluti The Light Setup getur aukinheldur nýst ágætlega sem birtumeðferð þegar að skammdegisþunglyndis fer að gæta um slóðir sýningarinnar eftir því sem frekar hallar að vetri. Raunar var merkilegt að sjá það strax nú meðal sýningargesta, einkum barna, að mörg hver drógu þau bastmottur fram á gólfið og lögðust niður til að njóta birtunnar. Varla er hægt að saka blessuð börnin um lærða hegðun eftir að hafa þrællesið allt um sömu viðbrögð fólks við sýningu Ólafs í Tate Modern hér um árið þannig að enn og aftur má sjá sterk og óvenjuleg viðbrögð sýningargesta við verkum Ólafs.
Þegar gengið er inn í hliðarsal sýningarinnar blasir við algul birta reglulegra flúorljósaröra í loftinu. Ólafur hefur um nokkurt skeið leikið sér að gulu birtunni og oftar en ekki nýtt sér hana við inngang sýninga sinna til þess að „hreinsa“ huga sýningargesta af utanaðkomandi skynjunum áður en lengra er haldið. Guli liturinn virkar vel til „hreinsunar“ þar sem að birtan sem af honum stafar sýnist aðeins í gráskala en skerpist hins vegar jafnframt. Hver flekkur á húð manns verður því allt í einu ofurgreinilegur í þessum svarthvíta heimi gulu birtunnar. Verkið byggir jafnvel enn frekar á sýningargestum þegar þarna er komið sögu. Listaverkið verður í raun fyrst til þegar að gengið er inn í rýmið og sýningargestir, sem allt í einu eru orðnir eintóna í útliti, eru helst til skoðunar.
Ekki minni verða áhrifin hins vegar þegar aftur er komið út í hvíta rýmið. Þá verður maður allt í einu fyrir árás alls litaskalans sem beinlínis æpir á mann í sínum skærustu blæbrigðum. Eftir örlitla aðlögun dofnar allt aftur og hlutirnir fara í svipað far og maður er vanur en eftir stendur sú skynjun sem sýningargesturinn verður fyrir þar sem samspil birtu og lita og áhrif þess á skynjun fólks verða manni allt í einu mjög greinileg. Upp í hugann kemur aftur staðreyndin um norræna skuggann langa sem við hér á úthjara heimsins drögum á eftir okkur bróðurpart ársins og þau sálrænu og líkamlegu áhrif sem samspilið milli birtu og lita almennt hefur á líf mannfólksins.
Sá hluti sýningarinnar sem til sýnis er í Lundi er að nokkru leyti kunnuglegur þeim íslensku listunnendum sem lögðu leið sína á sýningu Ólafs í Hafnarhúsinu á síðasta ári. Hér, eins og þar, getur að líta líkön og skissur Ólafs að stærri verkum sem ýmist hafa orðið að fullsköpuðum verkum eða dagað uppi einhvers staðar á leiðinni. Meðal annars eru til sýnis líkön sem nýttust við gerð hins stóra og mikla titilverks Frost Activity-sýningarinnar. Að sama skapi er fjöldi ljósmyndasería á sýningunni, til dæmis myndröðin Reykjavík sem einnig var með á Frost Activity-sýningunni svo og aðrar myndraðir sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa Ísland sem myndefni. Ýmis önnur fullkláruð verk af ýmsum stærðum og gerðum frá mismunandi tímum eru þar einnig til sýnis. Öll eiga þau það sameiginlegt með verkinu stóra í Malmö að reyna á skynjun sýningargestsins og takast á við form og lögun.
Hafi það farið framhjá einhverjum gesti annarrar hvorrar sýningarinnar að honum er ætlaður mikill hlutur í verkum Ólafs þá verður það væntanlega öllum ljóst á efri hæð sýningarsalarins í Lundi en þar fer mest fyrir tækjum og tólum sem sýningargestum eiga að nýtast til þess að búa sjálfir til sín listaverk. Fólki gefst kostur á að leggja blað undir tæki sem teiknar hringi, misjafna í laginu eftir því hvernig sýningargesturinn - sem nú er orðinn listamaðurinn - ýtir við því. Einnig er hægt að byggja heilu hallirnar úr legókubbum sem allir eru hvítir að lit og loks er á hæðinni einnig að finna sams konar leikföng og gestir Frost Activity - ekki síst þeir yngstu - muna væntanlega vel eftir.
Ástæða er til að hvetja fólk til að skilja Lundarhluta sýningarinnar ekki útundan, jafnvel þó að sitthvað þar kunni að hafa komið reykvískum unnendum Ólafs fyrir sjónir áður á sýningunni í Hafnarhúsinu. Sýningarhlutarnir tveir í Malmö og Lundi mynda nefnilega heildarmynd þar sem hvorugt má með góðu móti án hins vera. Svo tekur það ekki nema um það bil stundarfjórðung að fara í lest á milli byggðarlaganna tveggja þannig að það ætti ekki að vefjast fyrir fólki að heimsækja báða hluta sýningarinnar samdægurs.
Íslendingar sem staddir eru á Eyrarsundssvæðinu þetta haustmisserið ættu því ekki að hafa nokkra ástæðu til þess að láta framhjá sér fara sýningu Ólafs Elíassonar - listamannsins áhugaverða sem við Íslendingar viljum ávallt eigna okkur sem allra mest af. The Light Setup-sýning safnanna stendur yfir fram í byrjun janúar. Söfnin eru opin alla daga vikunnar og aðgangur inn á þau bæði er ókeypis.
Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 3. desember 2005.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home