Punktar um hryðjuverkin í Lundúnum

• Óvönduð vinnubrögð á RÚV
Hvurslagt fréttamennska er það hjá Ríkissjónvarpinu (lesist: hjá Ólafi Sigurðssyni) að þrástagast á því í skjátexta og frétt af sökudólgum árásanna að „Múslimar séu að verki“? Á þetta að stuðla að auknum skilningi menningarsvæða á milli eða að slá á þá fordóma að fólk ákveðinnar trúar eigi í eðli sínu til að grípa til jafn villimannslegra hluta og fjöldamorða á saklausum borgurum? Man einhver til þess að hafa lesið fyrirsögnina „Kristnir að verki“ þegar að fólk kristinnar trúar hefur framið viðurstyggilega glæpi? Ekki ég, að minnsta kosti.
• Um mismikinn náungakærleik
Er það óeðlilegt að athygli okkar beinist frekar að hryðjuverkum sem framin eru í Lundúnum en til að mynda í Írak? Svarið er sjálfsagt bæði; já og nei. Auðvitað er ákveðin hræsni og tvöfeldni í því fólgin að mörg okkar hrökkvi frekar við þegar að sprengjur springa í Lundúnum en í Bagdað. Það segir vitanlega ákveðna sögu um skeytingarleysi okkar gagnvart örlögum þeirra sem búa utan hins verndaða forréttindasamfélags hins Vestræna heims.
Hins vegar er þetta ekki alveg svona einfalt. Það þarf ekki endilega að vera óeðlilegt að okkur varði frekar það sem gerist í London en annars staðar. Ekki hefur okkur Íslendingum til að mynda þótt það óeðlilegt að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafi fyrst og fremst látið það sig varða að aðstoða okkur þegar yfir okkur hafa dunið náttúruhamfarir. Að sama skapi þarf það ekki endilega að vera merki um botnlausa hræsni að okkur bregði frekar við þegar að sprengingar verða í heimsborginni Lundúnum.
Fyrir utan það að borgin sé innan okkar seilingar landfræðilega þá dvelst ávallt fjöldi Íslendinga í borginni, margir Íslendingar þekkja þar að auki vel til borgarinnar og borgarbúa og samskipti Íslands og Bretlands eru þar að auki mikil og góð. Það er einfaldlega í mannlegu eðli að óttast fremur um þá sem manni eru nákomnir en aðra - sama hversu einhverjum kann að þykja það hljóma hráslagalega. Íslendingar höfðu því fulla ástæðu til þess að veita árásunum mikla athygli. Hitt er annað mál að við mættum svo sannarlega standa okkur betur í því að setja okkur inn í aðstæður stríðshrjáðra þjóða í fjarlægari löndum og álfum.
• Ofbeldi réttlætt
Hverju sætir þegar sum okkar hér á Vesturlöndum hafa gengið svo langt í sjálfsgagnrýni sinni að þau eru farin að kenna okkur sjálfum og leiðtogum okkar um hryðjuverkaárásir eins og þær sem dundu yfir Lundúnir í vikunni? Vissulega má segja að bræðralag hinna viljugu (eða vígglögðu, eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur stundum kallað það) eigi sinn þátt í því að gefa öfgafullum öflum tilefni til þess að nota innrásina í Írak sem átyllu fyrir voðaverkum eins og þeim í Lundúnum í vikunni. Vissulega var búið að vara við því að aðferðir hins viljuga bræðralags í baráttunni gegn hryðjuverkum myndu leiða til þveröfugrar niðurstöðu.
En þrátt fyrir þetta allt saman er einum of langt gengið þegar að ákveðnir aðilar eru farnir að sýna því fullan skilning og leggja jafnvel sumir blessun sína yfir að það megi stunda miskunnarlaus fjöldamorð á saklausu fólki - bara ef manni er nógu mikið niðri fyrir. Þeir sem slíku halda fram eru ekkert betri en Bush og aðrir öfgafullir hægri-extremistar sem finnst að ofbeldisfull hefnd jafngildi réttlæti. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og þeir sem því beita eru alltaf í órétti.
Í þessu sambandi er ekki úr vegi að benda á ádrepu blaðamannsins Nicks Cohen Guardian í dag í dag þar sem hann gerir einmitt þetta að sínu umtalsefni. Vert er að benda á að Nick Cohen stendur til vinstri við Tony Blair og er, þrátt fyrir þessa grein, einhver harðasti og þekktasti gagnrýnandi forsætisráðherrans sem fyrirfinnst á Bretlandi. Hann verður því ekki sakaður um að tala þarna eftir einhverri flokkslínu eða af fylgispekt.
Birtist á Sellunni 10. júlí 2005.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home