26.6.05

Ok karlmennskunnar

Eitt af því sem einkennir Svía er hversu ofboðslega mikið þeir velta hlutunum fyrir sér og grandskoða allt ofan í kjölinn. Stundum finnst Íslendingnum þessi árátta þeirra ganga ögn út í öfgar og bíður þess bara að þeir drífi hlutina af í stað þess að þurfa að diskútera þá út í hið endalausa. En þetta hefur líka vissulega sínar mörgu góðu hliðar, meðal annars þegar kemur að þeim sterílíseruðu kynjamyndum sem Svíar hafa náð nokkrum árangri í að afbyggja með því að kafa markvisst ofan í viðfangsefnið og halda stöðugt við í umræðunni.

Fyrir vikið ber meira á því í Svíþjóð en til að mynda á Íslandi að fólk fái að vera eins og það er í stað þess að á það séu lagðar þær kröfar að það uppfylli einhverja heildarímynd hvors kynsins fyrir sig. Sænskir karlmenn halda þannig frekar sinni karlmennsku óskertri, jafnvel þó að þeir viti ekkert hvað leynist undir vélarhlíf bíls eða hver er fyrirliði hollenska landsliðsins í fótbolta. Einhvern veginn verður þetta til þess að minna verður um rembing, gorgeir og hranaleg samskipti en til að mynda hér á landi þar sem enginn vill sýna á sér þau veikleikamerki að hann sé ekki alvöru karlmenni sem getur snarað Húsafellshellunni með annarri og líður hvergi betur en uppi á togaradekki í ofviðri úti á Barentshafi.

Það er því ekki úr takti við umræðuna í Svíþjóð að þar komi fram ungur karlkyns blaðamaður og skrifi heila bók (stutta, að vísu) um heim karlmennskunnar. Hér er um að ræða bókina Med uppenbar känsla för stil eftir blaðamanninn Stephan Mendel-Enk. Stephan þessi hafði meðal annars skrifað um ýmis karlmennskutengd efni, eins og íþróttafréttir, þegar að hann fór að velta því fyrir sér hversu djúpt ýmsar karlmennskuímyndir rista.

Hann hefur leit sína að rótum karlmennskunnar í bók sinni á því að fara ofan í kjölinn á fyrirbærinu húlíganisma í kringum fótbolta og hvort ofbeldisdýrkun húlígana væri í raun eins einangrað fyrirbæri og margir vilja gjarnan halda fram eða hvort að ofbeldisdýrkunin væri í beinum tengslum við kúltúrinn í heimi knattspyrnunnar yfirleitt. Hann kemst að því að húlíganisminn er ekki eins afmarkað fyrirbæri og flestir vildu vera láta. Alls staðar innan knattspyrnuheimsins sé þeim flíkað sem sýna hörku; grófir leikmenn eru „baráttuglaðir“ meðan að þeir sem að hoppa upp úr tæklingunum eru „prímadonnur“ og svo framvegis.

Áfram heldur Mendel-Enk að rekja sama kúltúrinn og ræðir meðal annars hversu snemma á lífsleiðinni kynjunum eru innprentuð mjög stíf kynjahlutverk. Hver hefur til dæmis ekki orðið vitni að því þegar að talað er til nýfæddra barna þar sem strákarnir eru „algjörir grallarar“ en stelpurnar „litlu sætu prinsessurnar“? Höfundur nefnir meðal annars hina íslensku Hjallastefnu Margrétar Pálu til sögunnar sem fyrirmyndardæmi um hvernig vinna megi í því að brjóta þessar kynjaímyndir allar niður.

Niðurstaða bókarinnar er fremur sorgleg fyrir karlmenn sem aldir eru upp í samfélagsímynd síðustu áratuga. Þeir eru fangar einhverra þröngra hugmynda um líkamleg og andleg hörkutól sem finnst hommalegt að faðmast og aumingjalegt að gráta og bjánalegt að opna sig og ræða hlutina opinskátt nema bara þegar það brýst út í reiðiköstum eða slagsmálum. Bókin sýnir manni það svart á hvítu að jafnréttisbaráttan er ekki nema bara rétt að byrja og að ekki hefur tekist að brjóta niður nema bara obbann af þeim karlmennskuklisjum sem allir karlmenn eiga að standa undir, hvort sem þær henta þeim eður ei. Bókin sýnir manni líka fram á að jafnréttis- og kvenfrelsisbaráttan gagnast karlmönnum ekki síður en konum vegna þess að með því að frelsa kynin undan oki kynjaímyndanna þá fær hver einstaklingur að blómstra út á þá eiginleika sem hann raunverulega hefur til að bera – algjörlega óháð því hvort þeir tengjast járnabindingum eða bleyjuskiptum.

Að bókinni má ef til vill það finna að það skortir örlítið á frumlega greiningu hjá höfundi hennar og á stundum hengir hann sig fullmikið í nýmóðins viðteknar niðurstöður um allsherjarsýn á ímyndir kynjanna. Það er sérstaklega slæmt í bók sem ætlar sér það að berjast gegn ríkjandi klisjum að grípa þá bara til annarra og nýrri í staðinn algjörlega gagnrýnislaust og án nokkurs efa.

Med uppenbar känsla för stil er annars gott framlag í umræðuna um sterílar kynjaímyndir samtímans og sýnir okkur kannski helst hversu þessar ímyndir eru enn þá ríkjandi á tímum þegar að margir hafa meira að segja haldið því djarflega fram að slíkar ímyndir séu einungis hluti af fortíðinni. Bókin sýnir að því miður er það fjarri sanni. Í rauninni erum við ekki komin lengra en svo að við séum rétt byrjuð að gera okkur grein fyrir umfangi vandans. Og þá á meira og minna eftir að vinna alla vinnuna sjálfa. Það er því eins gott að byrja strax.

Birtist á Sellunni 26. júní 2005.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home