Framsækin samfylking í Reykjavík

Sjálfstæðismenn skyldu hins vegar ekki fagna of snemma. Sé vika langur tími í pólitík, eins og stundum er sagt, þá jafnast veturinn framundan á við heila eilífð. Raunar var engu líkara en að Stefán Jón Hafstein hefði haft skeiðklukku við höndina til þess að byrja prófkjörsbaráttu sína nákvæmlega á þeim tímapunkti þegar að úrslitin voru ljós á hægri kantinum. Við þetta bættist svo að ekki var annað að heyra á Birni Inga Hrafnssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, í Silfri Egils á sunnudaginn var en að það eina sem óljóst væri varðandi framboð hans fyrir framsóknarmenn á næsta ári væri hvenær nákvæmlega því yrði lýst yfir. Við sama borð sat svo Össur Skarphéðinsson sem gat ómögulega útilokað það að hann kynni að gefa kost á sér líka. Það er því varla lognmolla framundan.
Undanfarnir mánuðir hafa verið sjálfstæðismanna í borgarpólitíkinni en nú má sem sagt búast við því að við taki tímar framsóknar- og samfylkingarfólks fram að prófkjörum þessara flokka snemma næsta árs. Í því ljósi er vert að velta því fyrir sér hvers vegna þessir tveir samstarfsaðilar innan R-listans (samstarfið ríkir enn fyrir þá sem voru búnir að gleyma því!), tveir miðsæknir félagshyggjuflokkar í borgarmálunum, hafa ákveðið að heygja sína baráttu í sitt hvoru lagi.
Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa um eitt og annað ólíkar áherslur í landsmálapólitíkinni. En hvaða málefnalega himingap er á milli þessara tveggja miðsæknu félagshyggjuafla í borgarmálunum sem réttlætir að þeir bjóði fram í sitt hvoru lagi? Hverju munar yfirhöfuð? Spyr sá sem ekki veit. Er það ekki einungis barnalegur þvergirðingsháttur og hugsanlega persónulegar þrætur örfárra sjálfskipaðra „flokkseigenda“ á milli sem hafa valdið því að tveir flokkar með sömu stefnu og sömu markmið innan borgarinnar ætla að fara fram næsta vor í sitt hvoru lagi, báðum aðilum til fylgismissis?
Flokkunum tveimur hefur gengið svo vel að stilla saman strengi sína málefnalega undanfarin ellefu ár í borgarstjórn að mörkin milli borgarfulltrúa þeirra eru með öllu ógreinanleg. Enn þann dag í dag hafa engar málefnalegar þrætur komið upp milli framsóknarmanna og samfylkingarfólks sem gefa tilefni til þess að halda að framboð undir sameiginlegum fána þeirra næsta vor ætti að vera nokkrum vandkvæðum bundið.
Þess vegna væri það hyggilegt af flokkunum tveimur að láta af allri einþykkni og þrjósku og huga þess í stað að hag þeirra sjálfra og borgarbúa sem í undanförnum þremur kosningum hafa skýrt sýnt þann vilja sinn í verki að þeir vilja félagshyggjustjórn í Ráðhúsinu. Báðir flokkarnir hyggja á opin prófkjör í sinni mynd í upphafi næsta árs. Hægðarleikur væri að slá prófkjörum flokkanna saman á þeim tíma og leyfa borgarbúum að velja til orrustu sterkan lista til að skora íhaldið á hólm. Framsóknarmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjum af rýrum hlut sínum frá því prófkjöri með fólk eins og Björn Inga í fremstu víglínu enda nánast fullvíst að fjölmörgum öðrum en heitustu frömmurum þætti gríðarlega góður liðsauki í Birni Inga, einum efnilegasta stjórnmálamanni landsins um þessar mundir. Gott ef í honum gæti ekki leynst framtíðarleiðtogaefni innan borgarinnar.
Slík breiðfylking miðsækins félagshyggjufólks ætti góðan möguleika á því að slá öll þau vopn úr höndum sjálfstæðismanna sem þeir halda á þessa stundina. Ákveði fólk af einhug og krafti að hella sér í slíka samvinnu þá er allt eins víst að vörn vinstri manna í Reykjavík geti breyst í nýja stórsókn á næstu mánuðum sem jafnvel gæti skilað hreinum meirihluta næsta vor.
Nú er lag!
Birtist á Sellunni 11. nóvember 2005.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home