Drögum söguna fram í dagsljósið

Sjálfur naut ég þeirrar gæfu að skipuleggja og fara með leiðsögn í einni af þeim göngum sem farnar voru í sumar. Efni þeirrar göngu var slóðir karlkyns skálda í miðborg Reykjavíkur frá árdögum kaupstaðarins til okkar daga (svipuð „kvenkyns“ ganga var farin fyrr um sumarið). Við skipulagningu þessarar göngu opnaðist fyrir mér heill heimur merkilegra frásagna af Reykjavíkurskáldum allra tíma og á mig fór að leita sú spurning hvers vegna því er ekki haldið betur á lofti hversu merkilega sögu ýmis hús og staðir í miðbæ Reykjavíkur hafa að geyma.
Það eru til að mynda fordæmi fyrir því í borgum erlendis að utan á merkisstöðum séu skilti þar sem vegfarendur geta fræðst um þá miklu sögu sem tengist viðkomandi byggingu eða viðkomustað. Í Stokkhólmi eru til dæmis skilti á víð og dreif um borgina þar sem staðir sem hafa verið notaðir sem sögusvið bókmennta eru sérstaklega merktir og með fylgir textabrot úr viðkomandi bókmenntaverki. Annað dæmi er París þar sem markverðir staðir úr sögu borgarinnar eru einnig merktir á svipaðan máta.
Það ætti að vera hægðarleikur að leika þetta eftir í Reykjavík. Borgin þyrfti ekki einu sinni að leggja í kostnað við það að semja efni á skiltin eða að skilgreina efnisflokka því að þegar liggur fyrir mikil vinna starfsfólks safna borgarinnar sem undanfarin ár hefur bæði sett saman efni fyrir bæklinga og göngur undir leiðsögn sem einkum snýr að miðbænum. Það efni hefur snúið að miðbænum sem sögusviði skáldsagna, miðbæjarljóðum, ljósmyndasögu borgarinnar, styttum bæjarins og skáldaslóðum – svo að eitthvað sé nefnt.
Það þyrfti þess vegna ekki annað en að taka einfaldlega þann texta sem þegar er fyrir hendi (og aðlaga örlítið ef þarf), grafa hann á skilti og koma þeim svo fyrir á íslensku og ensku við merka staði í miðbænum. Þar með gætu vegfarendur um miðbæinn til dæmis fræðst um hvar Steinn Steinarr hafði fyrir venju að sitja inni á Hressó, hvar á Spítalastígnum skáld komu saman og Vefarinn mikli og Bréf til Láru voru hvort tveggja lesin upp í fyrsta skipti í handriti og hvar á Grundarstígnum Einar Benediktsson hírðist á sínu versta niðurlægingarskeiði. Eins mætti til að mynda hafa textabrot úr Tímaþjófi Steinunnar Sigurðardóttur við sögusviðið Menntaskólann í Reykjavík og annað við Tjarnarbakkann þar sem Halldór Laxness staðsetti Brekkukotið í Brekkukotsannál sínum.
Þetta ofureinfalda og ódýra verk myndi verða til þess að draga fram í dagsljósið það sem einmitt er styrkur miðbæjar Reykjavíkur; það er saga hans og menning og hlutverk hans sem vettvangur stórtíðinda og stórmenna þessa lands í gegnum tíðina. Ekki veitir miðbænum af slíkri upplyftingu.
Birtist á Sellunni 26. ágúst 2005
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home