15.7.05

Vonarneistar

Þess var minnst í vikunni að tíu ár eru liðin frá hrikalegustu fjöldamorðum í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar að sveitir Bosníu-Serba drápu þúsundir bosnískra múslima með aðstoð hollenskra friðargæsluliða í bosníska bænum Srebrenica. Fjöldamorðin voru viðurstyggilegasti atburður borgarastríðsins alls á Balkanskaganum og hvöttu alþjóðasamfélagið til mun meiri íhlutunar og harðari aðgerða gagnvart Bosníu-Serbum en beitt hafði verið fram að því.

Enn þá logar hatur
Ekki er að undra þó að enn þá logi hatur á milli þjóðarbrota í Bosníu enda ekki hlaupið að því að græða þau sár sem fjöldamorðin í Srebrenica og önnur illvirki stríðsins í Bosníu ollu. Enn þá gætir fjölmennt alþjóðlegt herlið friðarins í landinu og yfirstjórn Bosníu er að miklu leyti í umboði fjölþjóðlegra stofnana – einkum Sameinuðu þjóðanna.

Bjartsýni og svartsýni
Nú á vordögum vann ég að mastersritgerð um frammistöðu Sænsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (Sida) í ákveðnum uppbyggingarverkefnum í Bosníu. Í samtölum mínum við málkunnugt fólk fór það mikið eftir því við hvern var rætt hvernig þeir hinir sömu skynjuðu ástandið á milli þjóðfylkinga í Bosníu. Sumir vildu halda því fram að allt myndi fara í bál og brand aftur um leið og friðargæsluliðar myndu hverfa úr landi en aðrir þóttust sjá merki friðar og sátta í samskiptum fólks á milli í landinu.

Friðsamleg samskipti og gagnkvæm virðing
Ein vísbending um það að ástæða væri til bjartsýni var króatísk viðhorfskönnun sem ekki enn hefur verið gerð opinber en ég fékk í hendur frá Sænsku þróunarsamvinnustofnuninni og verður notuð í mati á starfi stofnunarinnar í Bosníu sem kemur út nú síðar í sumar. Þar var meðal annars kannað viðhorf meginþjóðarbrotanna þriggja í landinu (Bosníu-Serba, Bosníu-Króata og bosnískra múslima) hvers til annars.

Niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars þær að nánast allir svarendur (87-97% aðspurðra) sögðust annað hvort bera virðingu fyrir eða hafa ekkert á móti fólki af öðrum þjóðarbrotum í landinu. Langflestir þátttakenda sögðust einnig koma friðsamlega fram við fólk af öðrum þjóðarbrotum og þegar spurt var hvort fólk tryði því að þjóðarbrotunum í Bosníu myndi takast að búa saman í sátt og samlyndi þá var 83-90% úrtaksins á því að svo myndi vera.

Örlar þó enn á tortryggni
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður örlar þó greinilega enn á tortryggni sumra. Enn þá er allt að fjórðungur og upp í helming aðspurðra – breytilegt eftir þjóðarbrotum – á því að þeir finni einungis til öryggistilfinningar ef þeir búa á svæðum þar sem þeirra þjóðarbrot er í ráðandi stöðu.

Stríðsæsingur elítunnar eða kraumandi hatur?
Allt í allt studdi könnunin frekar við bakið á því mati að borgarastyrjöldin hefði frekar byggt á stríðsæsingi leiðtoganna fremur en innibyrgðu hatri meðal alþýðu fólks. Vonandi gefur hún rétta mynd af stöðu mála nú áratug eftir að stríðinu í Bosníu lauk þó að þess beri vissulega að geta að þetta var aðeins ein könnun og að hinn virkilegi prófsteinn á það hversu vel fólki myndi ganga að eiga friðsamleg samskipti kæmi ekki fyrr en friðargæsluliðið hyrfi úr landi og landsmenn sjálfir þyrftu að slíðra sverðin án utanaðkomandi hjálpar.

Því miður virðist sú stund ekki enn þá vera upp runnin þrátt fyrir einstaka vonarneista sem vonandi fjölgar með árunum.

Birtist á Sellunni 15. júlí 2005.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home