Opið bréf til Þjóðdansafélags Reykjavíkur

Reykjavík, 15. júní 2004.
Kæri viðtakandi.
Það hefur komið mér og fleirum í opna skjöldu að frétta það að til væru reglur hjá ykkur í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur um það að fólk af ákveðnum uppruna megi ekki klæðast íslenskum skautbúningi frá búningaleigu ykkar.
Ég hef talið mig búa í samfélagi þar sem almenn sátt ríkir um hið stjórnarskrárbundna ákvæði að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og að ekki megi mismuna fólki, meðal annars vegna þjóðernisuppruna, kynþáttar eða litarháttar.
Því hefur það valdið mér töluverðum vonbrigðum að fá ekki annað séð af fréttum en að starfað sé meðvitað eftir vinnureglum sem byggja á kynþáttamismunun við útleigu á skautbúningum á búningaleigu Þjóðdansafélags Reykjavíkur.
Ég geri ráð fyrir að þið hafið þó málefnalegar og vel ígrundaðar ástæður fyrir þeim reglum sem þið hafið sett ykkur í sambandi við útleigu á íslenskum skautbúningi. Mig langar því að biðja ykkur vinsamlegast um að útskýra þessar reglur aðeins betur fyrir mér:
1) Hvers vegna mátti Sheba Wanjiku (forsíðufyrirsæta síðasta tölublaðs Reykjavík Grapevine) ekki klæðast skautbúningi frá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur?
2) Er bannið algilt fyrir þeldökkar konur, og hvers vegna þá?
3) Finnst ykkur reglur um bann við útleigu á íslenska skautbúningnum til þeldökkra kvenna bera vott um kynþáttahatur? Ef ekki, hvernig hljómar þá ykkar skilgreining á kynþáttahatri?
4) Mega ættleiddar íslenskar stúlkur af erlendum uppruna klæðast skautbúningi frá ykkur?
5) Gilda reglurnar einnig um konur af öðrum uppruna, t.a.m. asískum, suður-evrópskum eða slavneskum?
6) Þætti ykkur æskilegt að aðrir færu að fordæmi ykkar og mismunuðu þeldökkum íbúum Íslands vegna kynþáttar síns?
7) Hyggist þið biðja Sheba Wanjiku (forsíðufyrirsætu síðasta tölublaðs Reykjavík Grapevine) og aðra afsökunar á þeirri niðurlægingu sem þið hafið valdið henni og öðrum þeldökkum íbúum Íslands með framferði ykkar?
Virðingarfyllst og með von um skjót og greinargóð svör,
Sigurður Ólafsson
kt. (xxxx)
sigol@hotmail.com
Birtist á Sellunni 15. júní 2004.