29.9.04

Sópað undir teppi

Í gærkvöld var sýndur fyrri hluti af tveimur í heimildarþáttaröð hér í sænska ríkissjónvarpinu þar sem hulunni er svipt af samskiptum Vänsterpartiet, sænska sósíalistaflokksins, og austurblokkarinnar. Vänsterpartiet á það sameiginlegt með systurflokkum sínum víða um lönd að vera plagaður af kommúnískri fortíð sinni og fornri vináttu við vafasöm öfl. Allt fram til ársins 1990 hét flokkurinn Vänsterpartiet Kommunisterna en flokkurinn hefur þrátt fyrir það haldið því fram að öll vinsamleg tengsl hans við Sovétríkin og austurblokkina hafi endanlega verið fyrir bí árið 1977. Nú hefur hins vegar annað komið í ljós.

Órofin tengsl við austrið
Í þætti gærkvöldsins var sýnt fram á hvernig tengsl flokksins við austurblokkina voru ekki rofin á ofanverðum áttunda áratugnum heldur þvert á móti aukin. Nokkur dæmi má nefna: Sovéskir fulltrúar þögguðu niður tillögu á flokksþingi Vänsterpartiet 1978 þar sem krafist var lýðræðis og frelsis í Austur-Evrópu. Samskiptin við Austur-Þýskaland voru líka mikil, formaður flokksins var tíður gestur í sendiráði A-Þjóðverja í Stokkhólmi á áttunda og níunda áratugnum og á sama tíma fóru ungliðar á vegum flokksins reglulega til starfa hjá austur-þýskum áróðursmiðlum. Ferðir flokksmanna til Austur-Evrópu voru tíðar og allar einkenndust þær fremur af vinarhóti í garð ríkjandi einvalda en tilraunum til þess að bindast samtakamætti við lýðræðissinnuð andspyrnuöfl í löndunum.

Varðhundar einræðiskerfisins
Sumir fengu þó vissulega nóg, gengu úr flokknum eða gagnrýndu valdakerfið í austri. Við slík tækifæri stukku hins vegar aðrir upp til handa og fóta og vörðu kommúnismann með kjafti og klóm. Meðal þessara varðhunda einræðiskerfisins var núverandi formaður flokksins Lars Ohly. Í dag þykist hann hins vegar ekkert af slíku vita og segir jafnframt að ekkert í hans fortíð bendli hann við kommúnistastjórnirnar í austri eða stuðning við þær. Þáttagerðarfólkið virðist hins vegar ekki hafa gleypt við þessum fullyrðingum hans ótuggnum því að í þættinum að viku liðiðnni verður kastljósinu beint að fortíð hans.

Dýrðlingarnir Kim Il-sung og Ceausescu
Eitt eru bein tengsl flokksins við einræðisstjórnirnar í austrinu en annað sá hugmyndafræðilegi stuðningur sem ekki leið heldur undir lok árið 1977, eins og flokkurinn kýs nú í hræsni sinni að halda fram. Flokksmenn, jafnt þeir sem standa í fremstu röð í dag sem og aðrir, dásömuðu ástandið í Norður-Kóreu, Rúmeníu og í fleiri slíkum „fyrirheitnum löndum“ og bölvuðu vestrænum ríkjum fyrir að hafa ekki vit á að koma til valda góðmennum og stjórnvitringum eins og Kim Il-sung og Nicolae Ceausescu. Nú vill enginn þeirra kannast við slík ummæli, roðna bara og fara undan í flæmingi. Segja bara að með því að segja að löndin hefðu verið stórkostleg í alla staði þá hafi þeir sko eiginlega bara hafa verið að meina landslagið og svoleiðis!

Það er því ljóst að sænski vinstriflokkurinn þarf virkilega að þrífa eftir sig óhreinindin í fortíðinni, í það minnsta að koma hreint fram og segja eins og er: að stuðningur þeirra við einræðisherra og illræmt valdakerfi hafi haldist allt fram á hrun kerfisins en ekki endað einhvern tíma miklu fyrr.

Sjá umfjöllun um efni þáttanna á
heimasíðu sænska sjónvarpsins.


Birtist á Sellunni 29. september 2004.