20.10.04

Mælirinn fullur

Umræðan í sænska knattspyrnuheiminum snýst um lítið annað þessa dagana en ólætin á Råsunda-leikvanginum á mánudaginn var þegar að hópur stuðningsmanna heimaliðsins AIK hleypti öllu í bál og brand eftir að þeirra lið hafði lent undir gegn erkifjendum sínum Hammarby, sunnar úr borginni. Stuðningshópur AIK hefur um langt skeið verið alræmdur langt út fyrir Svíþjóð fyrir dólgshátt og óspektir og ekki hefur skapferli spellvirkjanna skánað við það að AIK hefur gengið allt í mót á þessu keppnistímabili og rær nú lífróður fyrir sæti í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Óspektir daglegt brauð
Fyrir utanaðkomandi knattspyrnuáhugamann, eins og þann sem þetta skrifar, virðist hið alþjóðlega vandamál varðandi óspektir í tengslum við knattspyrnu vera á nokkuð alvarlegu stigi hér í Svíþjóð. Hér er nánast daglegt brauð að fréttir berist um að leikmönnum og þjálfurum berist ískyggilegar hótanir frá reiðum stuðningsmönnum, um daginn fékk til dæmis þjálfari eins liðs logandi hlut inn um svefnherbergisgluggann hjá sér um miðja nótt með þeim skýru skilaboðum að stuðningsmenn óskuðu þjónustu ekki hans lengur.

Á hverju ári eru fjölmörg dæmi um það að leikmenn flýi ekki bara liðið sem þeir spila með, heldur flýi beinlínis land, eftir alvarlegar hótanir frá áhangendum sem á einhverjum öfugsnúnum forsendum halda að á þann hátt séu þeir gera félaginu sínu greiða. Þess fyrir utan er það svo algengt að það telst vart til stórfrétta lengur að hópum stuðningsmanna lendi saman yfirleitt með þeim afleiðingum að fjöldi manns slasast og stórfelld spjöll eru unnin á eignum alls óviðkomandi aðila.

Ekki bend’á mig!
Sænsk knattspyrnuyfirvöld og sænsk félagslið hafa lengi verið sökuð um að sýna mikla linkind í þessum málum. Refsingar til handa spellvirkjunum eru vægar ef þá nokkrar og allir hafa bent á einhverja aðra sem hina raunverulegu sökudólga; knattspyrnusambandið bendir á félögin sem benda sjálf á samfélagið sem svo aftur beinir sjónum sínum að knattspyrnuyfirvöldum og þannig kastar hver ábyrgðinni frá sér og vill sem minnst af ástandinu vita.

Mælirinn loks fullur
Atburðirnir á Råsunda á mánudagskvöldið var urðu hins vegar til þess að mælirinn fylltist hjá flestum. Nú virðast menn loks vera búnir að fá nóg af uppburðarlitlum og á stundum mótsagnakenndum afsökunum íþróttafélaganna. Ef afsökunin um að það sé lítill hópur sem skemmi fyrir meginfjöldanum þá spyrja nú aðrir á móti: Ef þetta er svona lítill hópur þá ætti ekki að vera mikið mál að ná höndum utan um hann og útiloka hann frá knattspyrnuviðburðum í framtíðinni. Segi menn hins vegar að vandamálið sé stórt og mikið og óviðráðanlegt einu knattspyrnufélagi, getur þá kannski verið að ekki sé bara um einhvern lítinn og afmarkaðan hóp að ræða sem er í mótsögn við alla hina?

Langþreyttir knattspyrnuáhugamenn sætta sig nú ekki lengur við slíka þegjandi þögn meirihluta stuðningsmanna, stjórnarmanna og leikmanna AIK. Nú vill fólk sjá raunverulegan og samstilltan vilja allra félagsmanna: að friðelskandi áhorfendur setji sig upp á móti óeirðarseggjum í eigin röðum, að leikmenn hlaupi ekki upp að stæðum húlígana og klappi þeim lof í lófa fyrir stuðninginn og að stjórnarmenn sýni eigið frumkvæði í baráttunni gegn ofbeldi í eigin röðum í stað þess að segja bara að það sé sænska knattspyrnusambandsins að ákveða refsingar í garð félagsins. Sjálfsagt hefði það til dæmis vakið traust á stjórn AIK hefði hún ákveðið að eigin frumvæði að leika fyrir luktum dyrum í næstu umferð í stað þess að bíða dóms sambandsins og vona að það refsi sem minnst og helst ekkert og því þurfi sem minnst að aðhafast.

Lágmarkskröfur um hátterni stuðningsmanna
Ýmsar kvarðar hafa verið settir í alþjóðlegri knattspyrnu hvað varðar umgjörð knattspyrnuleikja. Við Íslendingar höfum fyrst og fremst þurft að huga að bótum á vallaraðstæðum í þessu sambandi en höfum blessunarlega verið lausir við meiri háttar óspektir í tengslum við íþróttaviðburði. Svíar hrósa því miður ekki sama happi. Fjölmörg gefin tilefni hafa orðið til þess að nú þykir mönnum nóg komið.

Nú leggja menn meðal annars til í fúlustu alvöru að setja eigi reglur um að lið þurfi að uppfylla svipuð lágmarksskilyrði til þátttöku í deildarkeppninni um hegðan áhorfenda og gilda um bætur á vallaraðstæðum. Geti félag ekki sýnt fram á allar mögulegar aðgerðir til að hindra óspektir í eigin herbúðum þá fái það einfaldlega ekki keppnisleyfi það árið. Með slíkum reglum myndi háttalag stuðningsmanna loksins fyrirsjáanlega hafa nógu neikvæðar afleiðingar fyrir félagið sjálft. Það yrði kannski til þess að ýta við stjórnarmönnum félaga eins og AIK og þvinga þá til að líta í eigin barm í stað þess að gera lítið úr hlutunum og neita að líta til eigin ábyrgðar á uppkominni stöðu.

Birtist á Sellunni 20. október 2004.